138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:52]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þetta mun vera lokaræða mín hér í 2. umr. um þetta mál, sem vissulega hefur tekið tíma. En ég verð að segja að mér hefur fundist alveg furðulegt að hlýða á þá síbylju sem hér hefur verið um að það væri óeðlilegt af hálfu stjórnarandstöðu að ræða þetta mál jafnmikið og við höfum gert. Ég leyfi mér að fullyrða að það væri ófyrirgefanlegt ef við í stjórnarandstöðunni hefðum ekki staðið þá vakt sem við höfum staðið nú þegar og munum standa þar til þessu máli er lokið. Að mínu mati hefur það sýnt sig æ ofan í æ að á meðan á þessari umræðu hefur staðið hafa komið fram upplýsingar, bæði utan þingsins og hér inni í þinginu í ræðum sem hafa skipt máli fyrir okkur og skipta máli þegar kemur að því að greiða atkvæði um þetta mál. Ég held að þeir hv. þingmenn sem hér hafa farið fram með stóryrðum um það verkefni sem stjórnarandstaðan hefur verið að vinna að, muni þegar fram líða stundir eiga erfitt með að fletta þingtíðindum og lesa þau ummæli af því að í þessu máli er verið að ræða svo gríðarlega mikla hagsmuni fyrir íslenska þjóð til langrar framtíðar að það er útilokað annað en að ræða þetta mál með þeim hætti sem hér hefur verið gert, þ.e. að gefa sér allan þann tíma sem þarf. Stundum getur þessi umræða verið bæði þreytandi og leiðinleg, það kann vel að vera, en hún þarf samt sem áður að eiga sér stað af því að með umræðu komumst við að niðurstöðu.

Því miður hafa stjórnarliðar látið sig vanta í þessa umræðu sem hefur gert það að verkum að hún hefur fyrir vikið tekið enn lengri tíma en annars hefði þurft að vera. Ég skil vel marga þá hv. þingmenn sem hugsa með sér nú: Við hefðum jafnvel þurft enn frekari tíma. En við erum komin að þessum tímapunkti, hér erum við stödd og fram undan er síðan nefndarvinnan milli 2. og 3. umr. Við treystum því sem erum í stjórnarandstöðu hér í þinginu að þar verði unnið eftir því samkomulagi sem gert var við forseta þingsins af hálfu stjórnarandstöðuleiðtoganna, að ekki verði bara fylgt bókstaf samkomulagsins heldur þeim anda sem þar er, það verði ekki bara í orði heldur líka á borði. (Gripið fram í.) Það skiptir öllu máli, það er hárrétt, hæstv. utanríkisráðherra.

Ég hef sagt það áður hér í þessum stól að ég öfunda ekki þá sem þurfa að bera þetta mál uppi, hæstv. ráðherra sem eru í ríkisstjórn og þurfa að bera ábyrgð á þessu máli hér inni í þingi. Ég er þess fullviss að þeir gera það eftir bestu sannfæringu, bestu vitund og bestu getu. Ég held að það sé enginn sem ætlar þeim sem um þetta mál hafa vélað, neitt annað. Það breytir ekki því að það er eðlilegt að við í stjórnarandstöðunni höfum uppi athugasemdir og gerum athugasemdir við framgöngu íslenskra stjórnvalda í þessu máli vegna þess að það er ýmislegt sem er rétt að gera athugasemdir við.

Það er auðvitað umhugsunarefni að sagt hafi verið við okkur strax í sumar að það væri nauðsynlegt að segja já samstundis við því frumvarpi sem þá lá fyrir og það lægi mjög mikið á að gera það þegar það kom hérna í þingið. Alþingi taldi að það gæti ekki orðið þannig og ákvað að setja hina margumræddu fyrirvara. En þegar sagt var við okkur hv. alþingismenn að við yrðum að samþykkja þetta með hraði fylgdu því líka fullyrðingar um að ef það væri ekki gert væri ekkert hægt að gera í endurreisn íslenska bankakerfisins, öll sú endurreisn væri bundin því að við kláruðum að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Fyrr væri ekki hægt að gera neitt hvað varðar íslensku bankana, Alþingi yrði að samþykkja Icesave-samkomulagið. Sama var sagt um skuldamál heimilanna, að ekkert væri hægt að gera í því nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Það var líka fullyrt að á bak við þetta allt saman væri sú staðreynd að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mundi ekki halda áfram með áætlunina fyrir Ísland og að Norðurlöndin mundu ekki losa lán sín eða standa við þau lánaloforð sem þau höfðu gefið fyrr en við Íslendingar værum búnir að skrifa undir Icesave-samkomulagið.

Raunin hefur orðið sú að Norðurlöndin hafa sagt: Lánin eru tilbúin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kláraði endurskoðun sína, sem ekki átti að vera hægt fyrr en búið væri að segja já við Icesave-málinu. Við skulum muna það, hv. þingmenn, að við erum nú stödd með Icesave-málið á sama punkti og í ágústmánuði. Málið er hér óafgreitt hjá þinginu, rétt eins og það var í ágústmánuði. Það sem hefur breyst er að spár um það sem mundi ekki ganga eftir eða það sem mundi gerast ef við samþykktum ekki Icesave-samningana, hafa reynst rangar.

Ég hef sagt það áður í ræðu og mun jafnvel segja það aftur að það vekur athygli, umhugsun og reyndar nokkra eftirsjá að ekki skuli vera haldið fastar á ákveðnum málum á ákveðnum sviðum sem snúa að því að vinna málstað okkar Íslendinga fylgi. Við höfum spurt aftur og aftur úr þessum ræðustól og beint spurningum okkar til hæstv. forsætisráðherra: Hvernig stendur á því að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki haft samband bréfleiðis við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og krafist þess að fá skýringar? Talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi bendir á Norðurlöndin og segir rétt eins og yfirmenn hans hafa gert: Það voru Norðurlöndin sem kröfðust þess að Íslendingar beygðu sig fyrir Hollendingum og Bretum. Þegar sagt er við Mark Flanagan: Norðmenn eru búnir að afgreiða sitt og gerðu ekki slíka kröfu, segir hann að það séu Svíar sem standi að baki þessu öllu saman. Þá kemur sænski sendiherrann og fullyrðir að svo sé ekki.

Þá hljótum við að spyrja: Er ekki alveg nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra skrifi bréf til sænsku ríkisstjórnarinnar, þakki enn á ný fyrir þau lán sem standi til að veita okkur Íslendingum og þann vinarhug sem þar liggur að baki, en gefi um leið sænskum stjórnvöldum tækifæri á því að hreinsa sig af þeim ásökunum sem Flanagan hefur haft uppi um sænsk stjórnvöld. Ég trúi því ekki fyrr en ég reyni það að Svíar, bræðra- og vinaþjóð okkar, sú merka og góða þjóð, ætli sér að setja þá kröfu að við Íslendingar beygjum okkur fyrir Hollendingum og Bretum. Ef það kemur ekki einhvers konar niðurstaða í þetta mál stendur það þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á Svía og sagt: Það var að þeirra kröfu. Það gengur auðvitað ekki, frú forseti.

Það sem gerir þetta mál svo óskaplega sárt og erfitt er að við Íslendingar, hv. alþingismenn, segjum í 2. gr. þessa frumvarps: Við Íslendingar berum enga ábyrgð á þessum skuldum. Við viðurkennum ekki að okkur beri lögum samkvæmt að greiða þessar upphæðir eða að ganga í ábyrgð fyrir þær. Í sama frumvarpi leggjum við síðan til að við ætlum að veita ríkisábyrgð á þeirri upphæð sem við, samkvæmt okkar eigin lögum, segjum að við berum ekki ábyrgð á. Auðvitað munu þeir sem á eftir okkur koma og skoða þetta mál, velta fyrir sér hvaða skelfingarógn þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar stóðu frammi fyrir sem gerði það að verkum að þrátt fyrir að niðurstaðan væri sú að Ísland ætti að ekki að bera ábyrgð var ákveðið að veita hana.

Við sjálfstæðismenn sögðum allan tímann: Það á að reyna að ná samkomulagi um þetta mál vegna þess að það skiptir máli og það er greinilegt að Bretar og Hollendingar ætla að neita okkur um að fara með málið í réttarsal. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er ekki ásættanleg pólitísk lausn. Hvers vegna, frú forseti? Vegna þess að öll ábyrgðin lendir á okkur Íslendingum. Það er enginn eðlismunur á þessari lausn og þeirri sem fengist hefði ef við Íslendingar hefðum fengið því framgengt að fá málið til dómstóla þar sem dæmt hefði verið í málinu af hlutlausum dómara og sá dómari hefði komist að þeirri niðurstöðu að okkur Íslendingum bæri að borga allt, að við hefðum haft rangt fyrir okkur. Það er það sem gerir það að verkum að ekki er hægt að samþykkja þetta frumvarp. Það sem við samþykktum þó hér í ágústmánuði sl. var að við settum fyrirvara sem við töldum að væru nauðsynlegir til þess að hægt væri að tala um einhvers konar pólitíska lausn. Sú lausn sem (Forseti hringir.) hér liggur fyrir er ekki pólitísk, hún er bara sama niðurstaða og hefði (Forseti hringir.) fengist í dómsmáli ef við hefðum tapað og það er sorglegt.