138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst hvað varðar yfirlýsingar leiðtoga Norðurlandanna, hefur það komið skýrt frá þeim að þeir krefjast þess að Íslendingar standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Að sjálfsögðu munum við Íslendingar standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Það hefur alltaf verið skýrt í þessu máli allan tímann að við ætlum okkur og munum standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Okkur hefur verið meinað um að fá úr því skorið hverjar þær skuldbindingar eru.

Þess vegna verð ég að segja eins og er, frú forseti, að þegar það voru notuð sem sérstök rök fyrir því að við yrðum að klára að ganga frá málinu fyrir 30. nóvember að hætta væri á því að Bretar og Hollendingar færu með málið í dóm, fannst mér hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll vera orðin dálítið uppiskroppa með hótanir. Það var jú krafa okkar Íslendinga og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og annars staðar, það er það sem við Íslendingar höfum viljað gera, þ.e. fá úr þessu skorið fyrir óvilhöllum dómara. Sú hótun var undarleg.

Hvað varðar umræðuna um hvernig stjórnin hefur staðið sig í þessum málum er það ekkert skrýtið, og hæstv. ráðherra verður að sitja undir því, að hv. þingmenn, sem þetta mál skiptir svo miklu máli vegna þess að hér ræðum við svo ofboðslega mikla hagsmuni, tali um það. Þó að ég telji að menn hafi reynt að vinna sínu eins vel og þeir geta, hafa vinnubrögðin verið þannig að þau hafa aukið tortryggni okkar. Við sjáum það t.d. í fréttum í dag að háttsettur embættismaður í fjármálaráðuneytinu, sem hefur tekið mjög mikinn þátt í þessu ferli öllu saman, hefur staðið í tölvupóstssamskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í gegnum sitt einkanetfang. Það grefur auðvitað undan trúverðugleikanum (Forseti hringir.) í þessum málum þannig að það er stórkostlegt vandamál og hefði betur ekki komið upp.