138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú ekki kominn svo langt að giska á afstöðu hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er löng saga. Við byrjuðum með hruninu. Þá varð mikil angist á gjaldeyrismörkuðum. Hryðjuverkalögin komu í veg fyrir millifærslur til landsins og staðan var jafnvel þannig á tímabili að við áttum ekki gjaldeyri til kaupa á lyfjum og olíu. Síðan er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fenginn inn til hjálpar, hann kemur hérna galvaskur en svo allt í einu hikstar hann. Þá kemur í ljós að Bretar og Hollendingar, sem við vorum að semja við, nota áhrif sín innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að kúga okkur. Ég man eftir að hæstv. utanríkisráðherra sagði að hann mundi aldrei kyssa vöndinn. En hann er sko aldeilis búinn að kyssa hann, hann er búinn að éta hann líka. (Gripið fram í.) Það er vöndurinn sem hæstv. ráðherra kyssti. Hann er búinn að flengja hann svo rækilega að nú er hæstv. ráðherra útflengdur.

Síðan gerist það að fyrsta áætlunin fer í gang, fyrsta þrepið, en annað þrepið kemur aldrei. Þá er komin ný ríkisstjórn og hún náttúrlega skelfingu lostin því að það gengur ekkert með efnahagsáætlunina og uppbygginguna og allt það. Svona hefur þetta gengið alla tíð. Þarna eru kúganir frá útlöndum og menn eru logandi hræddir. En svo gerist það fyrir u.þ.b. mánuði síðan að allt fer að rakna upp. Menn spyrja: Bíddu, hver er eiginlega að kúga okkur? Norðmenn segja: Ekki ég. Svíar segja: Ekki ég. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir: Ekki ég. Það bara er í rauninni enginn að kúga okkur. Þess vegna held ég að núna sé einhver að passa upp á undirskriftina og upp á nefndina sem send var — að það (Forseti hringir.) sé í raun verið að vernda samninganefndina. (Forseti hringir.)