138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta hafi verið réttmæt ályktun, vegna þess að ég get ekki áttað mig á því af hverju í ósköpunum stjórnarliðar ætla að samþykkja Icesave. Getur verið að það sé af þeirri ástæðu einni að menn séu að vernda eigin hagsmuni, vernda samninganefndina hugsanlega, eins og hv. þm. Pétur Blöndal velti hér upp, kannski til þess að breiða yfir eigin mistök? Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi margoft gert hrikaleg mistök í þessu máli. Eins og kemur fram núna í tölvupóstssamskiptum hans helsta aðstoðarmanns lá hugsanlega fyrir að búið hefði verið að leysa málið fyrir síðustu kosningar en það átti að breiða yfir það, væntanlega vegna þess, eins og kemur fram í bréfinu sjálfu, að það hefði haft hrikalegar pólitískar afleiðingar fyrir Vinstri græna að samningurinn liti dagsins ljós þá. Maður veltir fyrir sér hvort sú ríkisstjórn sem starfar hér sé með réttmætt umboð til þess að starfa á Alþingi. Það er annað mál.

Ég vil fá að heyra skoðun hv. þm. Péturs Blöndals á því hvort það sé einhvers staðar eitthvað sem við ættum að óttast, vegna þess að einhvern tímann var talað um að EES-samningurinn væri í uppnámi. Hæstv. utanríkisráðherra skar úr um að það væri algjör fásinna. Svo áttu allir að bíða dómsdags sem átti að vera 23. október, en ekkert gerðist. Síðan voru það neyðarlögin, að Bretar og Hollendingar mundu nú hugsanlega höfða mál til þess að láta reyna á þau þegar hvorki meira né minna en fjögur eða fimm mál voru í gangi fyrir íslenskum dómstólum um neyðarlögin. Er eitthvað einhvers staðar sem okkur ber hugsanlega (Forseti hringir.) að óttast?