138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir svarið. Ég er einmitt þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin sé hér að beita handafli, a.m.k. verður maður að ætla það vegna þess að margir þingmenn meiri hlutans hafa lýst því yfir að þeir séu mótfallnir því að við samþykkjum Icesave.

En þá kem ég aftur að þessari spurningu sem mig langar til að bera upp: Hverja telur þingmaðurinn vera helstu orsök þess að við stöndum frammi fyrir því að stjórnarliðar munu væntanlega á morgun, þótt ég voni svo sannarlega ekki, segja já við Icesave-samningunum? Þeir munu segja já við máli þegar það er ljóst að Bretar og Hollendingar hafa í rauninni kúgað okkur til þess að komast að þessari niðurstöðu og beitt fyrir sig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum jafnvel þótt þeir allir þvertaki fyrir það. Ég held að það sé svona nokkurn veginn á hreinu.

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir hér í pontu að það væri einhver óskilgreind hætta á ferðinni, en við höfum farið yfir það í mörgum ræðum og fært rök fyrir því að það er í rauninni ekkert að óttast. Það hefur í rauninni allt komið fram sem stjórnarliðar sögðu að mundi gerast en þar var þó ekkert til að óttast. Hefur hv. þingmaður skoðun á því hver hin raunverulega ástæða er fyrir því að við samþykkjum Icesave-samningana? Getur verið að það sé t.d. hinn makalausi áhugi Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) á því að ganga í Evrópusambandið?