138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég verð að játa að blendnar tilfinningar bærast hið innra þegar ég kem hingað upp í mína síðustu ræðu í 2. umr. um þetta hörmungarmál. Ég hef sjálfsagt komið hingað upp 270–300 sinnum í þessari umræðu til að segja skoðun mína og mér finnst ég skulda þjóðinni, frú forseti, a.m.k. 300 ferðir enn. En svona er þetta, allt hefur sinn tíma. Ég klára þessa 2. umr. í trausti þess að það samkomulag sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna gerðu við forseta, og í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem hv. þm. og formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, las hér upp áðan, að málið fái þá meðferð í fjárlaganefnd og öðrum nefndum sem samið var um og búið er að lýsa yfir.

Frú forseti. Þann 3. júní 2009 spurði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fjármálaráðherra um stöðu mála í viðræðum við bresk stjórnvöld um Icesave-reikningana. Hann spurði einnig hvort til stæði að undirrita einhvers konar samkomulag, jafnvel á morgun, og ef ekki á morgun þá hvenær. Ég ætla að lesa lokaorð í svari hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun“ — þ.e. 4. júní — „eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Frú forseti, þetta var 3. júní. Þann 5. júní er ljóst að búið er að undirrita samkomulagið. Svo eru þingmenn stjórnarflokkanna og ráðherrar að væla undan því hér í ræðustól að þeir séu sagðir segja ósatt. Þetta er með ólíkindum. Það er með ólíkindum að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki kannast við sín eigin orð og kannast við þá þvælu sem hann hafði hér uppi við þingmenn.

Frú forseti. Linnulausum hræðsluáróðri hefur verið haldið uppi gagnvart þingmönnum og þjóðinni í þessu máli. Ekki er nóg með að Evrópusambandsþjóðirnar, með Svía, Breta og Hollendinga í fararbroddi, hafi kúgað íslenska þjóð til að taka á sig skuldbindingar sem henni ber ekki, heldur virðist sem svo að stjórnarflokkarnir séu að beita þingmenn sína sömu vinnubrögðum, nota sömu vinnubrögð. Röngum upplýsingum er jafnvel haldið að fólki eins og sjá má af þeim tilvitnunum sem ég hafði yfir áðan.

Grímulausar hótanir Evrópusambandsins, sagði hæstv. fjármálaráðherra hér um daginn. Við höfum orðið vitni að grímulausum hótunum innan stjórnarliðsins um þetta mál. Og hvað hangir á spýtunni? Hvað hefur hæstv. fjármálaráðherra fengið fyrir sinn snúð, fyrir það að elta Samfylkinguna, þann flokk sem líklega ber mesta ábyrgð á þessum Icesave-reikningum? Icesave-reikningarnir í Hollandi urðu til á vakt Samfylkingarinnar þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var viðskiptaráðherra og þeir hrundu á sömu vakt. Þannig er nú málið. Hvað fá Vinstri græn fyrir sinn snúð? Ekki neitt. Vinstri stjórn, hún skal lifa, það er það, aðgöngumiðinn í Evrópusambandið og Icesave-reikningarnir, það skiptir engu máli hvað það kostar ef vinstri stjórnin lifir. Frú forseti, þetta er hörmulegt. Mjög sterk orð koma upp í hugann þegar maður hugsar um þessa hluti, orð sem ég yrði líklega víttur fyrir að nota hér, en það eru þau orð sem mér finnst hægt að nota um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Frú forseti. Ég ætla að vona að þeim þingmönnum sem greiða þessu máli götu, sem munu samþykkja þetta mál, gefist tóm til að setjast niður eða horfa í spegil og velta því fyrir sér hvernig sálarró þeirra er og hvort þeir geti samvisku sinnar vegna gert þessa hluti, hvort menn hafi hreinlega samvisku í að samþykkja svona lagað. Ég hef það ekki og því mun ég greiða atkvæði á móti frumvarpinu og þessu máli á öllum stigum þess máls. Ég tek ekki þátt í að kúga íslenska þjóð.