138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Við í stjórnarandstöðunni og við í Framsóknarflokknum höfum talið mjög mikilvægt að þetta mál væri rætt út í hörgul. Kollegar mínir hafa margir hverjir haldið margar góðar ræður. Þeir hafa líka bent á það stóra vandamál að það stendur einfaldlega of mikið af upplýsingum út af borðinu, þ.e. það á eftir að afla sérfræðiálits um fjöldamörg álitaefni sem snerta lögfræðihluta málsins og hagfræðihluta þess. Menn hafa einnig verið að kalla eftir gögnum og ítrekað hefur verið óskað eftir því í fimm mánuði að allri leynd verði aflétt af gögnum málsins. Ég held að það hafi alltaf sýnt sig að það hafi verið fullkomlega rétt að halda þeirri kröfu til haga.

Þessari umræðu lýkur senn. En ég hef hugsað mér að ræða fjölmörg atriði til viðbótar og ég ætla mér að gera það. Fyrr í kvöld las hv. formaður fjárlaganefndar upp tilkynningu um að farið verði með málið í fjárlaganefnd eftir því sem stjórnarandstaðan óskaði og tekið mið af blaði með kröfum sem stjórnarandstaðan í fjárlaganefnd vill að sé kannað. Við vildum hafa það á hreinu að svo yrði gert og að tryggt yrði fyrir fram að menn gætu ekki skotið sér undan því, með útúrsnúningi eða einhverju öðru, að það samkomulag sem gert hefði verið við stjórnarmeirihlutann væri á einhvern hátt óljóst. Út á það gekk barátta mín í allan dag, að það yrði alveg á hreinu hvernig málsmeðferðin yrði í fjárlaganefnd.

Í fyrsta lagi kröfðumst við þess að fengið yrði álit bresku lögfræðistofunnar Mishcon de Reya á nokkrum álitaefnum. Við töldum það mikilvægt vegna þess að lögmannsstofan hefur gefið það út að Íslendingar ættu jafnvel ágætisrétt í þessu máli. Það er því miður þannig að þeim rétti og þeim sjónarmiðum sem styrkt hefðu hagsmuni Íslendinga hefur aldrei verið haldið almennilega til haga.

Í annan stað töldum við það mikilvægt, vegna þess að stjórnarmeirihlutinn gaf það út í greinargerð með upphaflega frumvarpinu, sem lagt var fram í byrjun júnímánaðar, að leitað hefði verið til bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya. Þar með vildu þeir sýna fram á að þeir hefðu aflað sér utanaðkomandi aðstoðar. Við viljum fá úr því skorið hvort efni og gerð samningsins teljist hefðbundin með hliðsjón af samningsákvæðum sambærilegra samninga og hvort samningarnir beri það með sér að jafnræðis hafi verið gætt á milli samningsaðila við samningsgerðina. Það er mjög mikilvægt að fram komi ítarlegt álit um þetta atriði.

Við vildum líka fá úr því yrði skorið hvaða þýðingu það hefði fyrir hagsmuni íslenska ríkisins, eða íslenskra aðila sem hugsanlega munu í framtíðinni höfða dómsmál vegna samninganna, að um þá gildi ensk lög en ekki íslensk. Við vildum fá úr því skorið hvort slík samningsákvæði, ef þau mundu leiða til þess að réttarstaða íslenska ríkisins eða íslenskra aðila, sem sagt Landsbanka Íslands hf., mundi skerðast, og réttarstaða breska ríkisins að sama skapi styrkjast — hvort það að samningarnir eiga að fara eftir enskum rétti, fyrir enskum dómstólum, hafi einhver áhrif á réttarstöðu landanna. Ég tel að það sé þannig. Ég held að við höfum samið illilega af okkur að setja fyrirvarana inn í samningana þannig að ensk lög gildi um þá.

Við vildum líka fá úr því skorið hvaða áhrif hugsanleg endurskoðun á löggjöf ESB, um innlánstryggingarkerfi, hafi á efnislegt gildi samninganna og skuldbindingar Íslands samkvæmt þeim, einkum með hliðsjón af þeim lagalegu skuldbindingum sem núverandi löggjöf ESB, um innstæðutryggingar, hefur í för með sér fyrir íslenska ríkið. Það er algjörlega óþolandi að jafnvel þó að dómsniðurstaðan einhvers staðar erlendis yrði Íslendingum í hag, að ekki sé talað um að Evrópusambandið gefi út þá yfirlýsingu að ekki sé ríkisábyrgð á bak við Icesave-samningana, eigi íslenska ríkið ekki að fá að njóta þess gjörnings. Það er ágætt að fá úr því skorið með lögfræðiáliti hvaða afleiðingar það hefði í för með sér fyrir samningsaðila.

Eins og alþjóð veit hafa nokkrir merkir lögfræðingar, okkar færustu lögfræðingar, bent á að það sé málum blandið, og mikill vafi leiki á um það, hvort frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Um þetta hefur verið deilt hér í ræðustól. Við óskuðum eftir því að þeir lögfræðingar sem meiri hlutinn kallaði fyrir nefndina mundu skila skriflegri greinargerð en þeir treystu sér af einhverjum ástæðum ekki til þess. Það er væntanlega af málefnalegum ástæðum og þeir hafa væntanlega ekki gefið sér tíma til þess að fara yfir málið. Það breytir því ekki að það er mjög mikilvægt að við sem þurfum að taka ákvörðun um þessa samninga fáum að vita hvort sú gjörð að samþykkja samningana brjóti í bága við íslensku stjórnarskrána. Ég tel að enginn þingmaður vilji það í raun og veru.

Við óskuðum eftir því að fengið yrði skriflegt álit þeirra Guðrúnar Erlendsdóttur og Péturs Hafsteins á álitaefnum sem tengdust umræðunni um framsal dómsvalds og umfang ríkisábyrgðar. Þetta eru þau tvö álitaefni sem snúa að stjórnarskránni. Þessir tveir aðilar eru fyrrverandi hæstaréttardómarar og eru í mínum huga algjörlega hafnir yfir vafa, eru meðal okkar reyndustu lögmanna. Ég held að allir geti verið sammála um að þau komi algjörlega að hreinu borði og ég vonast til að þau taki þetta mál að sér.

Ég ætla að fara yfir mörg atriði í næstu ræðu minni, atriði sem við ætlum að skoða í fjárlaganefnd. Ég vil taka það fram að í ljósi umfangs málsins, í ljósi þeirrar atburðarásar sem við höfum horft upp á, í ljósi þess að málsmeðferðin í öllu málinu eins og það leggur sig er þjóðinni til háborinnar skammar, er Alþingi til háborinnar skammar, er þeim aðilum sem bera ábyrgð á henni til háborinnar skammar, gæti Alþingi, með því að fara ítarlega yfir þessi atriði, jafnvel á einhvern hátt rétt úr kútnum. Ég vil benda á að þeir fjórir lögmenn sem fengnir voru fyrir fjárlaganefnd nefndu að aldrei aftur í sögu þjóðarinnar mætti hafa málsmeðferðina eins og hún hafi verið í þessu máli. Það má aldrei verða fordæmi fyrir sambærileg mál að keyra málið í gegnum þingið eins og gert hefur verið, halda gögnum leyndum fyrir Alþingi, mikilvægum upplýsingum, og að úr því verði skorið að allt verði uppi á borðinu.

Ég óska eftir því, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að ég verði settur aftur á mælendaskrá.