138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að halda uppteknum hætti og reyna að geta mér til um afstöðu stjórnarliða í málinu, þ.e. þeirra sem ekki hafa tekið þátt í umræðunni. Þar er kannski fyrst að nefna varamann Atla Gíslasonar. Ég er búinn að fara í gegnum afstöðu hans, hann er eindregið á móti því að samþykkja Icesave en hverfur svo af þingi til þess að sinna bókhaldi. Það kemur reyndar fram mjög víða á netinu að hv. þingmaður er mjög mikið á móti þessu. Það kemur t.d. fram að hann er óviss með stuðninginn. Í frétt RÚV segir t.d., með leyfi frú forseta:

„Fréttastofa RÚV leitaði álits hjá þingmönnum flokksins og tveir þingmenn Vinstri grænna vilja ekki lýsa yfir stuðningi við Icesave-samningana. Það eru þau Atli Gíslason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.“

Hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Björn Valur Gíslason og Lilja Rafney Magnúsdóttir vildu hins vegar styðja samkomulagið, og þetta er sagt sunnudaginn 7. júní, eiginlega rétt eftir að það var samþykkt.

Við vitum svo að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sá sitt óvænna og áttaði sig á hversu alvarlegt samkomulagið var. Hann hætti við stuðninginn við samkomulagið eins og það var 5. júní enda var það að öllu leyti skelfilegt. Sem betur fer var því breytt mikið og lagað með fyrirvörum sem Alþingi samþykkti og er nú orðið að lögum fyrir íslenska lýðveldið. En við ræðum hér breytingar á þeim lögum sem hæstv. ríkisstjórn vill gera, breytingar sem þynna út alla þá fyrirvara sem Alþingi gerði, eyðileggur þá nánast. Íslendingar skulu greiða hverja einustu evru og hvert einasta pund með gífurlega háum vöxtum sem gætu orðið mjög háir raunvextir, eins og ég hef margoft farið í gegnum, og kunna að fara mjög illa með íslenska þjóð.

Ég ætlaði að ræða um varamann hv. þm. Atla Gíslasonar, hv. þm. Arndísi Soffíu Sigurðardóttur. Hún ræðir nefnilega þann 31.7.2009 um flokksaga. Ég ætla að fá að lesa það, frú forseti:

„Mikið hefur verið rætt um flokksaga í tengslum við atkvæðagreiðsluna í þinginu þann 16. júlí sl. og án þess að maður sjái að það sé rökrétt vill umræðan um Evrópusambandið ætíð falla í flokkspólitískan farveg og þar með verða upphrópunarkennd. Það á reyndar við um flest þau málefni sem koma fyrir þingið um þessar mundir en það er auðvitað ekkert skrýtið. Íslenska þjóðin er í sárum, ekki bara efnahagslega heldur erum við búin að sjá að við vorum á villigötum bæði siðferðislega og félagslega. Þar að auki erum við búin að sjá að á sviði stjórnmálanna erum við alls ekki að standa okkur nógu vel á kostnað lýðræðisins.“

Hv. þingmaður segir svo áfram — og ég geri ráð fyrir því að hún sé að hlusta, frú forseti, vegna þess að það er skylda samkvæmt þingsköpum að taka þátt í þingstörfum. Ég reikna því með að hún sé að hlusta og skundi inn á þing og taki þátt í umræðunum sem er alls ekki lokið. Hún segir áfram, með leyfi frú forseta:

„Það sem við gerðum til að mæta þessu vandamáli var að kjósa okkur að nýju 63 fulltrúa á Alþingi sem við treystum til þess að leiða okkur út úr vandanum. Þess vegna er kannski enn sorglegra að horfa upp á hvert málefnið á fætur öðru falla á ný í flokkspólitískan farveg og upphrópanir þannig að fólki einfaldlega fallast hendur. Svo virðist nefnilega vera sem þjóðin sé ekki ein um það að vera ringluð eftir hrunið heldur virðast þjóðkjörnu fulltrúarnir vera það líka.“

Þetta er mjög athyglisvert, frú forseti, og það verður mjög gaman að heyra skoðun hv. þingmanns, sem mótmælir hér flokksaga, í því máli sem við ræðum hér. Við höfum ekki heyrt þá skoðun og ég gat ekki fundið það beint á netinu, þó að ég hafi leitað vel, hvaða skoðun hún hefur á Icesave. En þarna gagnrýnir hún flokksagann og nú virðist sem svo að í gangi sé mjög sterkur flokksagi. Það er engin leið að útskýra þátttökuleysi stjórnarliða í umræðunni á annan hátt.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson — ég hef sagt það áður — sagði í efnahags- og skattanefnd þegar málið var rifið út, umsögnin til hv. fjárlaganefndar, að við skyldum ekkert vera að ræða þetta í nefndinni heldur skyldum við taka umræðuna úti í sal á Alþingi. En við tökum ekki umræðuna hér á Alþingi, frú forseti, því að enginn stjórnarliði blandar sér í hana, hvað þá málefnalega. Enginn svarar öllum þeim álitamálum sem við höfum verið að ræða. Við fáum engin svör við því hvort stjórnarliðar fallist á þau rök sem við færum fram eða hvort þeir fallist ekki á þau og hvaða rök þeir hafi þá á móti. Við fáum ekkert slíkt. Við erum því í miklu tómi þegar við ræðum þetta mál. Við hlustum bara á rök hver annars og fáum engin gagnrök. Maður kynni þá að álykta sem svo að þeir fallist á öll rök okkar og þá þarf ég ekki að hafa miklar áhyggjur af málinu. Þá hef ég engar áhyggjur af málinu því að þá verður það fellt. En einhvern veginn segir mér svo hugur að málið sé ekki þannig vaxið. Og hvað skyldi ráða því, frú forseti? Það er einmitt sá flokksagi sem hv. þm. Arndís Soffía Sigurðardóttir er að gagnrýna í umræddri grein.

Hv. þingmaður segir svo þann 7. september, eftir að búið var að samþykkja Icesave:

„Æpandi þögn um hjásetu sjálfstæðismanna. Það er óhætt að segja að fá ef nokkurt annað mál hafi tekið á þjóðina eins og hin umdeilda ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna. Þetta mál hefur legið á þjóðinni eins og mara. Fréttaflutningur af málinu hefur verið mjög mikill og yfirþyrmandi. Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hefur komið fram og dauðadæmt þjóðina ef Alþingi segði já við ríkisábyrgðinni og álíka margir sérfræðingar héldu því fram að þjóðin væri dauðadæmd ef Alþingi segði nei við ríkisábyrgðinni. Icesave hefur verið á allra vörum í allt sumar. Íslendingar segja ekki lengur: „Jæja, það er blessuð blíðan,“ þegar þeir vita ekki hvað þeir eiga að segja heldur: „Jæja, hvað finnst þér um Icesave-samningana?“ Allir hafa skoðun á Icesave-samningunum, allir nema 15 sitjandi þingmenn á Alþingi, þar af 14 þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Einn var fjarverandi en hinir sátu hjá, sögðu „bæði og“, „hvorki né“, „kannski“. „Maybe I should have““ — segir hún þarna á ensku. Kannski hefði ég átt að gera það.

Hv. þingmaður skilur það ekki að þegar ég tók þátt í atkvæðagreiðslunni hefði ég alveg getað greitt atkvæði gegn málinu vegna þess að við vorum líka að greiða atkvæði um samninginn. Ég hefði líka getað greitt atkvæði með því vegna þess að allar tillögurnar voru jú tillögur okkar sjálfstæðismanna og ég gat alveg fallist á þær. Ég gat líka setið hjá. En ef ég hefði sagt já við tillögunum hefði ég um leið sagt já við samningnum.