138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það fer að líða að lokum þessarar umræðu, áður en klukkan slær 12 á hádegi á morgun skilst mér. Þetta gæti því hugsanlega verið lokaræða mín í 2. umræðu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal á heiður skilinn fyrir að fara yfir rök stjórnarþingmanna eða rökleysur. Hann hefur farið yfir það hvaða þingmenn hafa talað og hvað þeir hafa sagt og hvaða þingmenn hafa kosið að segja ekki neitt. Það er kannski eitt stærsta vandamálið í þessu máli að þingmenn meiri hlutans hafa ekki verið duglegir við að nýta sér þingið til að reyna að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, til þess að sannfæra þjóðina um að Icesave-samkomulagið sé gott fyrir þjóðina.

Maður spyr sig: Af hverju ætli það sé? Getur verið að sannfæringuna vanti? Getur verið að þeir kjósi að segja ekki neitt vegna þess að þeir eru ekki sannfærðir? Ég trúi því a.m.k. ekki að það sé vegna þess að þeir hafi ekki kynnt sér málið, það væri óskaplegt. (PHB: Kannski hafa þeir ekki skoðun.) Kannski hafa þeir ekki skoðun, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Jú, ég held að við verðum að gefa okkur það að þeir hafi skoðun, en ég held að sannfæringuna vanti. Ég held að þeir geti ekki, að þeir treysti sér ekki til þess, að koma hingað upp til að mæra samninginn, tala fyrir honum sem þeim besta sem völ sé á. Þeir láta hæstv. fjármálaráðherra það eftir.

Hæstv. fjármálaráðherra kom í andsvar áðan og sagði að hann hefði skaffað upplýsingar trekk í trekk og hefði komið fyrir utanríkismálanefnd í apríl og farið yfir öll þessi mál. Hann sagði eitthvað á þá leið að hv. utanríkismálanefnd hefði rætt þetta mál efnislega og komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri besta mögulega lausnin. Ég átti sæti í utanríkismálanefnd á þeim tíma og ég minnist þess ekki að utanríkismálanefnd hafi nokkurn tímann á þessum tíma, eftir að hæstv. fjármálaráðherra kom og greindi frá þessu samkomulagi, komist að einhverri niðurstöðu eins og hann gefur í skyn. Ég minnist þess hins vegar á fundi í utanríkismálanefnd á þessum tíma þegar hæstv. fjármálaráðherra kom og fór yfir samkomulagið — það var rétt eftir að hann hafði látið þau orð falla að von væri á glæsilegri niðurstöðu — að ég spurði hann í hverju sú glæsilega niðurstaða fælist. Hann dró í land, og ég held það hafi verið í fyrsta sinn, hann gerði það svo líka í fjölmiðlum rétt á eftir, og sagði að niðurstaðan yrði ekki glæsileg, það væri kannski ofsagt, en hún yrði bærileg. Þetta er það sem ég minnist úr hv. utanríkismálanefnd frá þessum tíma. Ég man ekki eftir því að utanríkismálanefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri skásti mögulegi kosturinn enda tókum við aldrei þannig umræðu.

Mér hefur orðið tíðrætt um gögn, ýmis gögn sem ég hef verið að kalla eftir. Ég ætla, í ljósi þess samkomulags sem var gert á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að fara yfir þær fyrirspurnir sem liggja fyrir þinginu, fyrirspurnir sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra út af þessu máli, til þess að það liggi klárlega fyrir og þingmenn og þeir sem eru að horfa á þessa útsendingu geti gert sér grein fyrir því hvaða gögn það eru sem ég er að kalla eftir.

Ég hef lagt fram nokkrar fyrirspurnir. Sú fyrsta er til fjármálaráðherra og er um fundargerðir af fundum um Icesave-málið. Ég vil, með leyfi forseta, fá að lesa þessa fyrirspurn í tveimur liðum:

1. Eru til fleiri fundargerðir eða frásagnir af fundum samninganefnda Íslands með breskum og hollenskum viðsemjendum um Icesave frá því eftir að Alþingi samþykkti lög um ríkisábyrgð 28. ágúst sl. en sú sem þegar hefur verið gerð opinber, og ef svo er, stendur til að birta þær? Ef ekki eru til fundargerðir, hvers vegna voru þær ekki gerðar?

2. Liggur fyrir fundargerð af fundum ráðherra um Icesave-málið með erlendum aðilum, t.d. í Istanbúl, og ef svo er, stendur til að birta þær? Ef ekki eru til fundargerðir, hvers vegna voru þær ekki gerðar?

Önnur fyrirspurnin er til utanríkisráðherra, um fundargerðir af fundum ráðherra með erlendum aðilum, með leyfi forseta:

1. Liggja fyrir fundargerðir af 20–60 mínútna löngum fundum ráðherra við þrjá þjóðhöfðingja og 12–14 utanríkisráðherra Evrópusambandsríkja á tímabilinu frá miðjum september til 22. október sl., og ef svo er, stendur til að birta þær? Ef ekki eru til fundargerðir, hvers vegna voru þær ekki gerðar?

2. Liggur fyrir fundargerð af fundi utanríkisráðherra með framkvæmdastjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, 22. september sl., og ef svo er, stendur til að birta hana? Ef ekki er til fundargerð, hvers vegna var hún ekki gerð?

Til skýringar vil ég geta þess að ástæðan fyrir því að þessi fyrirspurn er svo nákvæm er að hæstv. utanríkisráðherra tiltók alla þessa fundi hér í þingræðu og þess vegna er rétt að spyrja svo nákvæmlega.

Í þriðja lagi eru hér samhljóða fyrirspurnir til hæstv. forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra um fundi með erlendum aðilum um Icesave-málið. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

Hversu marga fundi, símtöl/samtöl, hefur ráðherra eða aðrir á hans vegum átt við erlenda aðila um Icesave-málið frá því að lög um ríkisábyrgð voru samþykkt 28. ágúst sl. og við hverja? Hvaða fundargerðir, formlegar eða óformlegar, minnisblöð, skriflegar frásagnir eða önnur skrifleg gögn liggja fyrir af þeim fundum? Stendur til að birta þau gögn?

Ég bið um skriflegt svar þar sem ég býst við að þetta sé heillangur listi.

Næsta fyrirspurn er til utanríkisráðherra um kynningu á málstað Íslendinga í Icesave-málinu. Hún er svo, með leyfi forseta:

Hefur utanríkisþjónustunni verið beitt til kynningar á málstað Íslendinga í Icesave-málinu? Ef svo er, hvernig hefur þeirri kynningu verið háttað og hver er áfallinn kostnaður við kynninguna?

Þarna verður fróðlegt að sjá hversu miklu hefur verið varið til þessarar mikilvægu kynningar, t.d. miðað við kynninguna sem fór fram þegar Ísland leitaði eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Lokafyrirspurnin sem ég hef lagt fyrir þingið til þessa er einnig til utanríkisráðherra um hótanir, Evrópusambandið og Icesave. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

Hvaða aðilar innan Evrópusambandsins höfðu uppi „grímulausar hótanir“ um að láta Íslendinga hafa verra af ef þeir drifu sig ekki í að „klára Icesave“ og hvernig var því svarað? Hver voru viðbrögð ráðherra og hvernig brást utanríkisþjónustan við?

Ég tek fram að „grímulausar hótanir“ og „klára Icesave“ er innan gæsalappa, vegna þess að þar er ég að vitna beint í ræðu hæstv. fjármálaráðherra sem viðhafði þau ummæli hér í ræðustól.

Eins og af þessu má sjá á enn eftir að fara yfir fjölmörg gögn og kalla eftir þeim. Atburðir dagsins í dag, þar sem við gátum loksins rætt um tölvupóst, sem var í leynigögnum sem þingmönnum var veittur aðgangur að í sumar, sýna að líklegt er að til séu gögn sem okkur hafa ekki verið sýnd. Eflaust væri ástæða til þess að leggja fram eina fyrirspurn enn og sérstaklega um þessi gögn á einkapóstfangi, hvort þar liggi einhver gögn sem ekki hafa verið skrifuð inn í málaskrá ráðuneytisins. Það getur vel verið að sú fyrirspurn komi fram einhvern næstu daga.

Ég vil að lokum, frú forseti, hvetja hv. fjárlaganefnd til að virða það samkomulag sem gert var milli stjórnar og stjórnarandstöðu og láta málið hafa sinn gang, taka þann tíma sem þarf til að vinna þetta mál. Eins og margoft hefur verið sýnt fram á og greint frá í ræðustól er ekkert eftir af hinni meintu pressu sem hæstv. ráðherrar hafa viljað setja á þetta mál og koma þar með í veg fyrir að það fái efnislega umræðu. Það liggur ekkert á að klára þetta fyrir einhvern fyrir fram ákveðinn dag. Leyfum málinu að klárast. Leyfum málinu að fá þá efnislegu (Forseti hringir.) umfjöllun sem því ber. Þannig getum við fullvissað íslenska þjóð um að við höfum gert allt sem við gátum til þess að tryggja hagsmuni hennar.