138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að heilbrigð skynsemi sé ekki langt undan hjá hv. stjórnarliðum þó að það líti út fyrir að hún hafi yfirgefið þau, það er vonandi bara tímabundið.

Þegar hv. fjárlaganefnd fer yfir þessi gögn, sem nú verður farið að ræða í nefndinni, og þegar við fáum túlkun virtra prófessora, hvort sem þeir eru íslenskir eða breskir, lögfræðinga og sérfræðinga, trúi ég ekki öðru en að hv. stjórnarliðar taki rökum. Hinn möguleikinn væri sá að hæstv. fjármálaráðherra sé búinn að lofa einhverjum einhverju sem hann á í erfiðleikum með að standa við. Því trúi ég ekki heldur og vil ekki trúa vegna þess að ég held að hæstv. fjármálaráðherra sé sómamaður sem mundi ekki gera slíka hluti án þess að vera búinn að tryggja meiri hluta á Alþingi.

Ef það er eitthvað sem Bretar og Hollendingar skilja, breskir og hollenskir stjórnmálamenn, og þeir sem fara fyrir þessum samningum af þeirra hálfu, og stjórnmálamenn hvar í heimi sem er, þá er það að það þarf tíma til að koma hlutum í gegnum Alþingi eða gegnum þjóðþing. Lýðræði tekur tíma. Stjórnmálamenn í öllum löndum gera ekki þá kröfu til annarra stjórnmálamanna að þeir gangi gegn vilja þjóðþinga sinna. Ef hæstv. ráðherrar hefðu bara farið út í heim og útskýrt stöðuna, eins og ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði margoft og ítrekað til í sumar, værum við í miklu betri stöðu með þetta mál (Forseti hringir.) en við erum í dag. En ég trúi því að við höfum enn tíma.