138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég fór áðan yfir þau atriði sem ég tel mikilvægt að fjárlaganefnd fari yfir og er í raun búið að samþykkja en ég tel mjög mikilvægt að við höldum samkomulaginu vel til haga. Ég ræddi að við mundum fá lögfræðiálit sérfræðinga í enskum lögum á texta samninganna, við mundum fá lögfræðiálit á þýðingu þess að ensk lög gildi um samningana en ekki íslensk, verði látið reyna á ákvæði þeirra fyrir dómstólum, við mundum fá lögfræðiálit um mat á áhrifum endurskoðunar á löggjöf ESB um innlánstryggingarkerfi á skuldbindingar Íslands samkvæmt samningunum og við mundum fá mat á afleiðingum þess að frumvarpið verði ekki samþykkt óbreytt eða dráttur verði á samþykkt þess.

Þá taldi ég einnig mjög mikilvægt, og á það hefur verið fallist, að við mundum fá lögfræðiálit um hvort frumvarpið standist álit stjórnarskrár. Þetta er allt til marks um að skoða þarf þetta mál mun dýpra. Öll sú umræða sem átt hefur sér stað hefur verið mikils virði. Ég finn að þjóðin er að átta sig á því hversu slæmir Icesave-samningarnir eru og kannski um leið að það hefði mátt halda betur á málum af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Við óskum eftir því að málið fari enn á ný til efnahags- og skattanefndar og að nefndin leiti álits Centre for European Policy Studies, sem er stofnun innan Evrópusambandsins sem tekur að sér að skoða mál af þessu tagi og hefur gert það fyrir mörg aðildarríki og framkvæmdastjórnina. Ég held að þetta sé hlutlaus og hæf stofnun og ég held að það sé líka mjög gott að við látum reyna á samningana innan Evrópusambandsins því eins og oft hefur komið fram í umræðunum þá er meginástæða þess að stór hluti stjórnarþingmanna samþykkir Icesave þessi óbilandi trú að okkur sé betur borgið innan ESB jafnvel þó að öll rök hnígi í hina áttina, sérstaklega nú undir það síðasta. En það er eins með það eins og með Icesave, fólk er að átta sig á þeim blekkingum sem haldið hefur verið að okkur í þá veru.

Það er ágætt að nefna eitt sérstakt atriði. Því var haldið fram á síðustu tveimur árum, sérstaklega fyrir hrunið, að matvælaverð á Íslandi mundi snarlækka um leið og við gengjum inn í Evrópusambandið. Nú heyrist sá málflutningur hvergi. Engum dettur í hug að svo verði, kannski vegna þess að gengi krónunnar er svo lágt í augnablikinu og engar líkur á því að það styrkist, sérstaklega ekki ef ríkisstjórnin samþykkir Icesave. Með því er verið að stuðla að því að krónan verði lág um ófyrirséða framtíð af því að um leið er verið að dæma íslensku þjóðina til fátæktar, þ.e. meiri hlutinn er að dæma þjóðina til fátæktar.

Ráðherrar stjórnarmeirihlutans hafa sakað stjórnarandstöðuna um dómsdagsspár, en við eigum að segja hlutina eins og þeir eru. Við eigum að vera heiðarleg. Þingmenn eiga að vera heiðarlegir og segja stöðuna eins og hún er. Það er þess vegna sem við höfum kallað eftir því trekk í trekk að fram komi álit þar sem við fáum stöðuna svart á hvítu. Ég held að það skipti öllu máli en ég vil taka fram að ég er mjög ánægður með að loksins skuli vera komið samkomulag um að við munum til að mynda leita til Centre for European Policy Studies og til fleiri aðila vegna greiningar á sjálfbærni skulda og gengisáhættu samninganna. Það er eitt af því sem hefur staðið algerlega út af borðinu.

Við óskum líka eftir því að viðskiptanefnd leiti eftir upplýsingum frá skilanefnd Landsbanka Íslands um fjárflæði úr þrotabúinu og að starfsmenn skilanefndar verði kallaðir fyrir nefndina. Ég veit að því trúir ekki nokkur maður að við sem erum á Alþingi og erum í fjárlaganefnd höfum ekki enn fengið upplýsingar um það hvaða eignir í þrotabúi Landsbankans eiga að ganga upp í Icesave-skuldbindingarnar. Við vitum það ekki. Við höfum heyrt einhvern ávæning af því. En það samrýmist reyndar ekki alveg því sem maður hafði heyrt nokkrum dögum áður. Það skondnasta sem maður hefur heyrt er kannski sú fullyrðing að endurheimtur eigi að verða 100%. Það er galið þegar haft er í huga að þegar Lehman Brothers voru gerðir upp í Bandaríkjunum — þeir fóru á höfuðið skömmu á undan íslensku bönkunum — urðu endurheimtur u.þ.b. 15–20%. Hér er fullyrt að endurheimtur verði 100% en ríkisstjórnin gleymir reyndar alltaf að geta þess að hún leggur sjálf fram 260 milljarða inn í þrotabúið. Með öðrum orðum eru 100 milljarðar færðir inn í þrotabúið og svo fáum við brotabrot af því til baka. Reyndar taka Bretar og Hollendingar svo helminginn þannig að þetta er væntanlega einhver lélegasta ávöxtun á háum fjármunum sem um getur í mannkynssögunni, ætla ég að leyfa mér að fullyrða.

Nokkur atriði viljum við hafa algerlega á hreinu, þ.e. hvernig þau koma út fyrir Íslendinga í framtíðinni. Við viljum í fyrsta lagi fá mat á því hversu miklar fjárhagsskuldbindingar samningarnir fela í sér. Það liggur ekki fyrir. Í öðru lagi viljum við fá mat á hættu í því að kveða á um skilyrðislausa greiðsluskyldu á vöxtum. Við teljum að það sé afar hættulegt en það er ágætt að fá mat á því, en þetta er hluti af Icesave-samningunum hvort sem fólk trúir því eða ekki. Við viljum líka fá mat á fjárhagslegri þýðingu breytinga á efnahagslegum fyrirvörum. Því miður er verið að breyta hinum efnahagslegu fyrirvörum til hins verra, og það til mikilla muna, en það þarf að meta það. Það þarf að meta fjárhagslega þýðingu á breytingu á fyrirvara er varðar reglur um úthlutun úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf., sem kennt er við Ragnar Hall. Ég er ekki viss um að Ragnar Hall vilji sjálfur að þetta ákvæði verði lengur kennt við hann vegna þess að búið er að gera það einskis vert að mínu mati. Ekki er nóg með að við séum búin að afsala okkur dómsvaldinu í málinu heldur eigum við að bíða milli vonar og ótta eftir því að álitið geti með einhverjum hætti, einhverjum töfrabrögðum, farið til EFTA-dómstólsins, þ.e. að ágreiningur sem lýtur túlkun á íslenskum lögum fari með öðrum orðum fyrir EFTA-dómstólinn sem fjallar alls ekki um íslensk lög. Hann fjallar um reglur Evrópusambandsins eða reglur þeirra ríkja sem eru innan Evrópska efnahagssvæðisins, það er mjög skýrt. En svo fá menn það út — þeir vona svo innilega að sú verði reyndin, ég ætla ekki að veðja á það en maður verður að vona það — að ef dómstóllinn vísar málinu frá verði niðurstaða Hæstaréttar samt Íslendingum í hag. Það stendur reyndar hvergi í samningunum og enginn hefur lýst því yfir en íslensku samninganefndaraðilarnir fullyrða að það sé einfaldlega þannig vegna þess að þeir meta það þannig, túlkun þeirra er á þann veg. Við spurðum þá hvort ekki væri ráð að fá túlkun einhverra annarra á þessari áhættu en þeir töldu það algeran óþarfa.

Við viljum fá mat á gengisáhættu samninganna. Það hefur ekki komið. Við viljum fá mat á fjárhagslegri þýðingu þess að vextir, samkvæmt samningunum, séu fastir, 5,55%, en ekki breytilegir. Svo ótrúlegt sem það er þá stórgræða Bretar á þessum hagstæðu vöxtum fyrir Íslendinga vegna þess að þeir geta, eins og belgískir tannlæknar gerðu á árum áður, fengið miklu hagstæðara lán annars staðar. Munum nú hvað kom okkur í þessar ógöngur. Það var að þessir svokölluðu belgísku tannlæknar fóru til Japans, tóku lán á lágum vöxtum og lögðu inn í Seðlabankann á gríðarlega háum vöxtum. Þar erum við að tala um krónubréfin og jöklabréfin en ríkisstjórnin er ekki enn búin að leysa það hvernig fara eigi með þau bréf. Það er enn óleyst. Fullyrt var í aðdraganda síðustu kosninga að það mál yrði leyst en það er enn óleyst. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að vera settur aftur á mælendaskrá, það eru fjölmörg atriði sem ég þarf að fara yfir.