138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að ræða örlítið um flokksræðið og lýðræðið. Hér stöndum við og höfum upplifað á þessu sumri að hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu. Meiri hluti Alþingis greiddi því atkvæði. Samt getur maður fullyrt, herra forseti, að ekki var meiri hluti fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Umsóknin sem send var um kvöldið var skilyrðislaus, það voru fjórar línur: Lýðveldi Íslands sækir um aðild að Evrópusambandinu. Punktur. Ekkert beðið um viðræður eins og Norðmenn gerðu þó í sínu ómerkilega umsóknarblaði. Ekki bent á þingsályktun Alþingis sem setti alls konar skilyrði við því að menn sæktu um. Ekki heldur getið um að fara ætti fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið sem reyndar er ekki bindandi en sumir þykjast engu að síður ætla að fara eftir. Ekki var heldur bent á að stjórnarskráin bannar það.

Það er búið að sækja um aðild að Evrópusambandinu og það merkilega er, herra forseti, að ef þessar 27 þjóðir mundu samþykkja þetta á morgun, ákveða að samþykkja þessa skilyrðislausu umsókn, er Ísland væntanlega orðið aðili að Evrópusambandinu eða hvað? Það þarf ekki meira til. Þá er Ísland orðið aðili að Evrópusambandinu.

Reyndar er komið í gang ferli með alls konar spurningar og svoleiðis og menn eru farnir að semja og eitthvað svoleiðis en umsóknin sjálf var skilyrðislaus. Og þetta gerist meðan Vinstri grænir eru í stjórn. Ég þekki eiginlega engan vinstri grænan sem vill ganga í Evrópusambandið. Ég man ekki til þess að nokkur þeirra hafi lýst því yfir. En samt gerist þetta. Hvernig skyldi það gerast að heill flokkur lætur kúga sig til að greiða atkvæði öndvert við skoðun sína? Kannski ekki alveg öndvert við skoðun sína því að sumir eru hálfvolgir, en aðrir voru eindregið á móti, t.d. hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sem er ekki viðstödd umræðuna núna. Hún hélt eina makalausustu ræðu sem haldin hefur verið á Alþingi alla tíð, örstutta ræðu þar sem hún sagði að sannfæring hennar stæði gegn því að við ættum að ganga í Evrópusambandið, Evrópusambandið væri hernaðarbandalag og ég veit ekki hvað og hvað, og svo sagði hún já.

Hvað á þetta eiginlega að þýða, herra forseti? Hvað á það að þýða að Alþingi Íslendinga er farið að afgreiða mál út þó að meiri hluti þingmanna vilji ekki samþykkja viðkomandi mál? Maður veltir fyrir sér hve mikið vald er í flokkunum og hvernig flokkarnir kúga þingmenn til að láta af því sem stjórnarskráin þó býður þeim, að fara að sannfæringu sinni. Nú eru formenn flokkanna búnir að gera samkomulag og þá er það þannig. Og ég veit nákvæmlega, herra forseti, hvað gerist. Ég veit nákvæmlega hvað gerist þegar málið fer í hv. fjárlaganefnd.

Í fjárlaganefnd munu menn eyða tveim vikum eða þar um bil til að friða samviskuna og friða stjórnarandstöðuna. Þeir munu fara í einhverjar skoðanir, það mun koma lögfræðiálit en það skiptir engu máli hvernig þetta lítur út. Það skiptir engu máli þó að lögfræðiálitið segi að Íslendingar hafi aldrei í lífinu átt að borga þetta. Það skiptir engu máli þó að áhættugreining segi að Íslendingar geti alls ekki staðið undir þessu með 30–50% líkum, það skiptir ekki máli. Það skiptir engu máli hvað kemur út úr þessu. Þetta er það hættulega við flokksræðið. Það er það hættulega við flokksræðið, herra forseti, að það slekkur á skynseminni. Það slekkur á sannfæringunni eins og hæstv. umhverfisráðherra lét svo berlega í ljós í ræðu sinni — ég skil ekkert í henni að halda þessa ræðu, hún gat sleppt því. Þetta var ótrúleg ræða og ég skora á alla landsmenn að lesa þessa ræðu til að átta sig á því hvernig flokksræðið virkar og hvernig það vinnur og hvernig það keyrir niður hið besta fólk.

Við stöndum frammi fyrir ákveðnu flokksræði. Ég hugsa að flestir þingmenn Samfylkingarinnar vegi málið þannig og meti að það borgi sig að greiða atkvæði með þessu samkomulagi þó að það sé hábölvað og þó að það valdi fátækt á Íslandi o.s.frv. vegna þess að þá eigum við einhvern séns í að ganga í Evrópusambandið, pínulítinn séns. Bretar og Hollendingar mundu hjálpa okkur. Kannski kemur Evrópski seðlabankinn með einhverja aura. Hann bauð 40 millj. kr. í sumar, svipað og Færeyingar lánuðu Íslendingum. Það voru öll ósköpin. Þetta var skammarlegt. En ég hugsa að hann eigi ekkert voða mikið af peningum, þannig séð. Ég hugsa að hv. þingmenn Samfylkingarinnar lifi í þeirri von að það komi einhver góður, Evrópusamfélagið, þetta þarna úti í heimi, og borgi fyrir okkur Icesave þannig að þetta lendi ekki á íslenskum fjölskyldum og stefni okkur í fátækt eins og Seðlabankinn sagði.

Hvað sagði Seðlabankinn í því sem ég las áðan úr nefndaráliti 1. minni hluta í efnahags- og skattanefnd, Helga Hjörvars og fleiri hv. þingmanna? Hvað sagði hann? Hann sagði að jákvæður afgangur af vöruskiptajöfnuði og viðskiptajöfnuði muni helgast af litlum innflutningi, þ.e. Íslendingar eiga að hætta að kaupa sjónvörp, bíla og svoleiðis dót. Það þýðir á íslensku að hér verði fátækt fólk, ekki stór hús, ekki bílar, ekki sjónvörp, ekki þvottavélar og svoleiðis dót, ekki þetta nýmóðins dót. Þá getur vel verið að upp sé komin sú staða — ég geri ekki ráð fyrir því að Vinstri grænir vilji slíkan heim, ég á ekki von á því. En það getur gerst og ef hér verður fátækt og við eigum að fara að borga einhverja risavexti af einhverjum lánum þá getur orðið hart í búi og það getur vel verið að ríkissjóður geti hreinlega ekki borgað.

En, herra forseti. Ég var áðan kominn með Árna Pál Árnason og ég má til með að klára það. Hann sagði í þessari makalausu ræðu við 1. umr. málsins í sumar, og ég vil benda á að þá var samkomulagið hrátt, eins slæmt og það gat nú eiginlega verið, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Það sem skiptir máli líka er að ljúka þessu, að leggja grunn að því að hér geti hafist efnahagsleg endurreisn.“ — Henda þessu sem sagt aftur fyrir sig. — „Á undanförnum vikum í þessari umræðu þar sem hefur gætt mikillar reiði yfir þessu ástandi og yfir þessum erfiðu örlögum, mjög skiljanlegrar reiði, hefur mér stundum verið hugsað til Egils Skallagrímssonar. Mér hefur verið hugsað til þess í Eglu þegar hann horfist í augu við að hafa misst syni sína.“

Hann segir síðar:

„Hann fyllist þessari djúpu erfiðu reiði og hann grætur og hann lokar sig af í rekkju sinni. Dóttir hans kemur og sannfærir hann um það að leiðin sé ekki að æðrast yfir erfiðleikunum heldur að snúa harminum til ljóðs, skapa eitthvað nýtt, gera eitthvað gott. Ég held að í þessu Icesave-máli séum við líka komin að endastöð hvað þetta varðar. Við höfum ólmast. Við höfum reynt allt sem við mögulega getum. Við höfum sótt fram alls staðar. Við reyndum öll þessi lögfræðirök. Við komumst ekki lengra. Nú er kominn tími til að sættast við þá niðurstöðu. Hún er ekki fullkomin. Auðvitað angrar þetta okkur. En það sem mestu skiptir núna er að fara að snúa harmi okkar til ljóðs, að skapa eitthvað nýtt, skapa verðmæti, snúa okkur að því að byggja eitthvað jákvætt upp þannig að við getum lagt þann grunn sem gerir okkur kleift að standa undir þessum skuldbindingum til lengri tíma litið.“

Það er sem sagt bara afstaðan, kasta þessu aftur fyrir sig, vera ekkert að horfast í augu við þetta, vera ekki reið yfir þessu og vona bara hið besta. (Gripið fram í: Að semja ljóð.) Semja ljóð, já, það er kannski ágætt að semja Sonatorrek af þessu tilefni. En hæstv. ráðherra bendir líka á einum stað í ræðu sinni á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, að hann hafi sagt að við getum borgað þetta í íslenskum krónum og því gerir hæstv. ráðherra lítið úr. En svo vill til að í 9. gr. laga um innlánstryggingar er sagt að heimilt sé að borga þetta út í íslenskum krónum. Það stendur í íslenskum lögum og það er merkilegt að nefndin skuli ekki hafa bent á það og sagt við Breta og Hollendinga: Já, já, við skulum borga ykkur en við borgum í íslenskum krónum. Þá erum við í allt annarri stöðu, herra forseti. Þá þyrftum við ekki að borga með útflutningi heldur yrðu Bretar og Hollendingar að vonast til að geta skipt þessu yfir í evrur eða pund og þurfa að sæta því á hverjum tíma að þeir nái því. Annars fá þeir ekki peningana. Þeir yrðu þá bara að fjárfesta á Íslandi fyrir þessa peninga og þá mundu peningarnir vinna í íslensku atvinnulífi. Auk þess gætum við prentað fleiri krónur með tímanum og látið svo verðbólgu éta þetta upp. Þannig hefur oft verið farið með miklar skuldir.