138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt að fara aðeins yfir þær ræður sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur haldið hér á Alþingi. Mér er mjög minnisstætt þegar hæstv. ráðherra hélt ræðu í upphafi málsins og við deildum um skylduna til að greiða. Ég taldi hana mjög óljósa og að lagaleg rök hnigu að því að við ættum ekki að borga Icesave. Undir þau sjónarmið hafa fjölmargir lögmenn tekið, bæði innlendir og erlendir. Varla finnst sá maður í dag, sá lögfræðimenntaði maður, sem heldur því fram að okkur beri skylda til að borga.

Hæstv. félagsmálaráðherra hélt því fram að það væri meginregla í alþjóðarétti, ef ég man rétt, að einstakir starfsmenn ráðuneyta gætu bundið þjóðina með undirskrift sinni. Hann hafi sjálfur verið í þeim sporum og þess vegna væri þetta mjög einfalt í hans huga. Einhver aðili innan einhvers ráðuneytis hefði skrifað undir einhvern pappír sem geri það að verkum að við eigum að greiða þetta.

Jafnvel þó að þetta sé algjör fásinna — þó að þessi meginregla kveði á um allt annað og við finnum þessu hvergi stað í nokkurri lagareglu eða bók, þó að enginn fræðimaður hafi nokkurn tíma haldið þessu fram, með öðrum orðum að þetta sé einfaldlega ekki til staðar — held ég að við verðum samt að hafa áhyggjur af því að hæstv. ráðherra túlkar þetta þannig. Ef svo ólíklega vildi til að þetta væri staðreyndin gæti einhver ungur maður eða kona í einhverju ráðuneytinu verið í Kína eða Japan að undirrita einhvers konar samkomulag sem komandi kynslóðir væru skuldbundnar til að greiða.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra gleymdi reyndar að geta þess að allar ákvarðanir verða að vera samþykktar af Alþingi, samkvæmt 40 gr. og 41. gr. stjórnarskrárinnar en það var aukaatriði í málinu. Það er ágætt að halda þessu til haga vegna þess að þetta sýnir og sannar að málflutningur stjórnarliða hefur verið með algjörum endemum. Um leið og maður kvartar yfir því að skoðanir þeirra skuli ekki koma fram hér í ræðustóli Alþingis skilur maður af hverju þeir treysta sér ekki í umræðuna. Það hefur einfaldlega allt verið hrakið sem þeir hafa lagt fram, hvert einasta atriði.

Ég ætla að halda áfram að fjalla um ræðu hæstv. fjármálaráðherra og fara aðeins í þann hræðsluáróður sem dunið hefur á íslensku þjóðinni af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar. Áður en ég fer beint í ræðu hæstv. fjármálaráðherra langar mig að benda á eitt atriði sem ég hef virkilegar áhyggjur af. Það hefur heyrst í umræðunni að einhverjir líti svo á að þó að við samþykkjum Icesave muni Evrópusambandið, eftir að við verðum komin þangað inn, sjá til þess að við þurfum ekki að greiða fyrir Icesave.

Ég hef verulegar áhyggjur af því, herra forseti, að þegar meiri hlutinn verður búinn að stimpla Icesave-samningana, eins og þeir ætla sér að gera, eða ég skynja að þeir ætli sér að gera, hefjist sá áróður að við verðum að samþykkja að ganga í ESB. Ekki bara af því að matvöruverð muni lækka — sem það mun væntanlega alls ekki gera og enginn heldur fram í dag — heldur vegna þess að Evrópusambandið muni sjá til þess að við munum ekki greiða fyrir Icesave-samningana. Ég óttast mjög þann áróður, virðulegi forseti, vegna þess að hann á sér enga stoð í raunveruleikanum. Maður hefur jafnvel heyrt virta þáttastjórnendur halda þessu fram, að þetta sé nú allt í lagi, þeir skilji ekki af hverju menn séu að ræða þetta og hafa áhyggjur vegna þess að við þurfum ekkert að borga þetta. Menn neita að horfast í augu við vandann, setjum bara málið aftur fyrir okkur og svo verða það bara börnin okkar sem þurfa að greiða fyrir þessa vondu Icesave-samninga, það verður þeirra vandamál. Við fáum sjö ára skjól. Reyndar er það skjól ekki meira en svo að við þurfum að borga 100 milljónir í vexti á hverjum einasta degi í þessu sjö ára skjóli, meira er það ekki.

Hæstv. fjármálaráðherra hélt því fram að það hefði verið forsenda fyrir endurskoðun samstarfsáætlunar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að komast að samkomulagi um Icesave. Nú náðist ekkert samkomulag en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ákvað engu að síður að veita lánið. Fulltrúar sjóðsins, ekki bara einn heldur a.m.k. tveir, hafa fullyrt að endurskoðun þeirra hafi nákvæmlega ekkert með Icesave að gera, akkúrat ekkert. Þá erum við enn á ný komin að því að orð þessara aðila og hæstv. fjármálaráðherra stangast á. Það er einfaldlega ekkert í málinu sem bendir til þess að þessar forsendur hafi verið uppi á borðinu, en því var haldið fram.

Það má þá kannski líka velta vöngum yfir því: Er Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heimilt að haga sér með þessum hætti? Hefur verið kvartað, t.d. til Bandaríkjamanna, yfir því að sjóðurinn, sem þeir eru stofnfélagar að, hagi sér með þessum hætti? Nei, það hefur því miður ekki verið gert. Það hefur ekki verið kvartað við einn né neinn. Jú, reyndar skal því haldið til haga að ríkisstjórnin hefur kvartað, og við hverja? Breta og Hollendinga sjálfa. Þið sem svínbeygið okkur til þess að samþykkja Icesave-samningana, við kvörtum yfir þeirri meðferð, kvörtum yfir því að þið neyðið okkur til að samþykkja Icesave. Ég velti fyrir mér hvernig þeirri kvörtun hefur reitt af í meðförum breska þingsins. Þeir hafa væntanlega stofnað nefnd til þess að fara yfir þá kvörtun. Það væri mjög athyglisvert að grennslast fyrir um það hvernig málsmeðferðin væri í breska þinginu. Ég skora á hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, sem er formaður utanríkismálanefndar, að grennslast fyrir um það hvort þeir séu ekki þegar að fjalla um það hvort þeir sjálfir hafi ekki beitt Íslendinga harðræði í málinu, það er jú búið að kvarta til þeirra.

Hæstv. fjármálaráðherra heldur áfram. Jafnvel þegar búið er að hrekja þær fullyrðingar að hræðsluáróðurinn hafi átt sér stað í raunveruleikanum heldur hann áfram. Nú er hótunin sú að menn geti hugleitt það í ljósi sögunnar hversu líklegt sé að endurskoðun númer tvö á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fari í gegn. Fyrsta hótunin gekk ekki eftir en nú skal haldið áfram, nú fáum við ekki endurskoðunina sem á að fara fram í janúar.

Hann bætti um betur og ræddi um matsfyrirtækin, að þau bíði með að úrskurða um lánshæfismat Íslands þar til þetta mál fái afgreiðslu og óvissu í kringum það verði eytt. Ég fagna því að hann hafi orðað þetta varfærnislega, hæstv. fjármálaráðherra. Að sjálfsögðu er það þannig að lánshæfismatið mun væntanlega ekki liggja fyrir fyrr en skuldastaðan liggur fyrir. Þá veltir maður fyrir sér: Er jákvætt að Íslendingar ætli að skuldsetja sig úr öllu hófi? Nei, einfaldlega vegna þess að lánshæfismatið er metið út frá því hversu skuldsett ríki eru og hvernig greiðslubyrði af þeim lánum sé í framtíðinni. Við erum að koma okkur í þá stöðu að þetta verður okkur nánast um megn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir sjálfur að skuldahlutfallið sé komið í 310%. Reyndar var einu sinni fullyrt að ríki væru gjaldþrota um leið og þau færu yfir 240% en því var breytt. — Ég mun fara betur yfir þetta hér á eftir.