138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér við lok 2. umræðu um þetta frumvarp til breytinga á lögum um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Ekki verður annað sagt en að þessi 2. umræða hafi verið löng og ítarleg og í henni hafi verið dregið fram að enn er margt óskýrt og óljóst varðandi efnahagsleg og lagaleg atriði þess frumvarps sem við ræðum um. Á hinn bóginn hefur líka mjög margt skýrst um afstöðu stjórnarflokkanna, sérstaklega ríkisstjórnarinnar, til málsins í víðu samhengi.

Kannski er rétt að benda fyrst á að í þessu máli er grundvallarágreiningur um hvort okkur standi einhverjir aðrir valkostir til boða en að samþykkja þessa afarkosti sem birtast í frumvarpinu sem við höfum verið að ræða. Það er nefnilega enginn ágreiningur um það hér á þinginu að við þurfum að hefja endurreisn efnahagslífsins sem allra fyrst. Við þurfum að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til þess að koma efnahagslífinu aftur í gang. Við erum í miðjum samdrættinum eftir fjármálahrunið.

Okkur greinir auðvitað á um leiðir og það birtist í ýmsum málum. Það birtist í fjárlagafrumvarpinu og skattamálum ríkisstjórnarinnar, í öðrum aðgerðum hennar og ekki síst í þessu máli. Þetta mál er lagt fram í þeirri trú af ríkisstjórnarinnar hálfu að við höfum engan annan valkost en þennan til þess að koma okkur aftur af stað. Ríkisstjórnin segir sjálf: Við höfum ekki lagalegar skuldbindingar til þess að taka á okkur þær byrðar sem felast í frumvarpinu. Þetta er sjónarmið ríkisstjórnarinnar, það segir í textanum sjálfum. Engu að síður er gengið út frá því í frumvarpinu að fallist verði á allt sem krafist hefur verið af íslenskum stjórnvöldum til lausnar á Icesave-deilunni.

Til þess að setja þetta mál í samhengi er ágætt að rifja aðeins upp hvernig staðan var þegar Landsbankinn féll. Í fyrsta lagi er það eindregin afstaða mín og niðurstaða eftir að hafa skoðað öll gögn í þessu máli að ekkert hafi verið sagt, ekkert hafi verið undirritað og engu lofað, hvorki formlega né óformlega, um að íslenska ríkið mundi veita ríkisábyrgð á þeim skuldbindingum sem við fjöllum nú um. Þá er ég að vísa til mánaðanna fyrir og eftir hrunið. Um þetta höfum við líka fengið álit sérfræðinga. Ekkert var sagt í tíð fyrri ríkisstjórnar sem batt íslensku ríkisstjórnina til þess að veita ríkisábyrgð. Aldrei í samskiptum við fjármálaráðherra Bretlands eða Hollands var ríkisábyrgð lofað. Því var lofað að láta tilskipun um innstæðutryggingar gilda á Íslandi eins og alls staðar annars staðar. Því var lofað að fara að lögum. Því var lofað að við Íslendingar skyldum virða allar okkar alþjóðlegu skuldbindingar en aldrei var því lofað að menn mundu gera meira en það. Sérstaklega var því ekki lofað að veitt yrði ríkisábyrgð fyrir skuldbindingum sem engin ríkisábyrgð stæði fyrir samkvæmt lögum eða alþjóðlegum skuldbindingum.

Þegar Landsbankinn lendir í greiðsluþroti er staðan þessi: Einstaklingar í Bretlandi og í Hollandi eiga kröfur á að fá innstæður sínar í bönkunum endurgreiddar. Það er einkaréttarleg krafa. Rísi Landsbankinn ekki undir þessum kröfum hefur þannig verið búið um hnútana á Evrópska efnahagssvæðinu að viðkomandi einstaklingar eiga kröfu á innstæðutryggingarsjóðinn. Í þessu tilviki var ljóst að hann gat ekki risið undir öllum þeim kröfum sem mögulega kæmu fram. Hvergi í lögum stóð að íslenska ríkinu bæri skylda til þess að tryggja að sjóðurinn gæti staðið undir sínum skuldbindingum en það var a.m.k. ljóst að ef á þessa skuldbindingu sjóðsins mundi reyna þyrftu viðkomandi einstaklingar að sækja rétt sinn hingað til Íslands, stefna innstæðutryggingarsjóðnum til greiðslu og eftir atvikum ríkinu til ábyrgðar fyrir þeim greiðslum ef menn vildu halda slíkri kröfu á lofti. Um þetta áttu að gilda íslensk lög og íslenskir dómstólar um að fjalla. Um gjaldþrotaskipti Landsbankans átti að fara samkvæmt neyðarlögunum annars vegar og sérstaklega gjaldþrotaskiptalögunum íslensku. Hæstiréttur Íslands var æðsti úrskurðaraðili um ágreining sem gat risið vegna þessara íslensku laga. Hvað hefur síðan gerst í millitíðinni? Höfum þessa stöðu í huga. Þetta var staðan þegar Landsbankinn fór á hausinn.

Eins og ég vék að áðan lofaði fyrri ríkisstjórn engu um að ríkið skyldi stíga inn í þessar ábyrgðir. Ég vil þó taka fram að fyrri ríkisstjórn var þeirrar skoðunar — og sú skoðun birtist í þingsályktun sem var afgreidd héðan — að það væri skynsamlegt að reyna að leita lausna í þessu máli og leiða málið til lykta í pólitískum samningum. Það var fyrir milligöngu Frakka sem hin sameiginlegu viðmið tókust. Að svo miklu leyti sem menn hér í þingsal hafa í allri umræðunni í sumar og núna í haust kallað eftir því að menn sýndu stöðunni einhvern skilning, sýndu ábyrgðartilfinningu og vott um að menn væru tilbúnir til þess að gera eitthvað til þess að leysa málið, birtist það í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var hér síðasta vetur og í viðræðum sem fóru fram í kjölfarið þar sem menn buðust til þess að taka þátt í lausn málsins. Því miður var ljóst frá fyrsta fundi að viðmælendur okkar höfðu engan áhuga á slíkri lausn heldur litu á málið sem innheimtumál af þeirra hálfu.

Það sem hefur breyst frá því að þessi staða var augljóslega uppi samkvæmt lögum þegar Landsbankinn féll er að þessi ríkisstjórn hefur gert samning sem hefur snúið öllu á hvolf. Í fyrsta lagi vill ríkisstjórnin taka ákvörðun um og leggur það til við þingið, ekki í fyrsta sinn, að veitt verði ríkisábyrgð fyrir öllu saman, allri lágmarkstryggingunni, jafnvel þótt hún telji að okkur beri engin lagaleg skylda til slíks. Í öðru lagi að við Íslendingar sættum okkur við að uppgjör málsins fari fram í erlendum myntum með þeirri gjaldeyrisáhættu sem því fylgir. Lögin sem giltu þegar Landsbankinn féll eru lögin um innstæðutryggingar eins og þau birtast í lagasafninu og þar kemur skýrt fram að sjóðurinn hafi rétt til þess að snúa öllum kröfum á sig í íslenskar krónur. Í þriðja lagi að þegar kemur að túlkun á íslenskum gjaldþrotalögum — við höfum margoft vitnað til þess sem hefur verið kallað Ragnars Hall-aðferðin við að skipta eignum úr búinu — hefur ríkisstjórnin snúið málunum við. Í upphafi áttu íslensk lög að vera túlkuð af íslenskum dómstólum en samkvæmt frumvarpinu sem við fjöllum um hér vill ríkisstjórnin að ef Hæstiréttur Íslands er sammála Ragnari Hall skipti það engu máli ef Evrópudómstóllinn eða ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum er ósammála því. Ef Hæstiréttur Íslands er ekki sammála Evrópudómstólnum eða EFTA-dómstólnum í þeirra ráðgefandi áliti skiptir hans álit allt í einu engu máli. Þetta leggur ríkisstjórnin til að gildi varðandi gjaldþrotaskiptalögin.

Með þessari niðurstöðu er líka verið að taka ákvörðun um að við greiðum Bretum og Hollendingum háa vexti. Vextirnir í þessu máli, hvort sem menn telja að það sé skynsamlegra að hafa fasta vexti eins og ríkisstjórnin leggur til eða breytilega vexti eins og sumir hafa reiknað að geti komið miklu betur út fyrir okkur Íslendinga, eru á endanum eingöngu til vitnis um að viðsemjendur okkar líta á þetta sem fjárskuldbindingu sem við þurfum að standa skil á, þ.e. þeir hafi á okkur kröfu en við séum ekki að leita pólitískrar lausnar á milliríkjadeilu sem rís vegna þess að Evrópulöggjöfin hafi algerlega brugðist. Þetta endurspeglast síðan í þeirri staðreynd að samningarnir sem liggja deilunni til lausnar eru einkaréttarlegs eðlis en ekki á nokkurn hátt þjóðréttarlegur samningur.

Eitt af því sem prófessorar sem komu fyrir fjárlaganefnd voru allir fjórir sammála um í síðustu viku var að það væri algerlega fráleitt að stilla lausn á þessu máli upp í einkaréttarlegum samningi eins og ríkisstjórnin hefur samþykkt að gera. Að svo miklu leyti sem við Íslendingar vildum hafa einhverja skoðun — við skulum gefa okkur að eitthvert okkar hér inni hafi skoðun á því hvernig helst mætti leysa þetta mál — er alveg ábyggilegt að hvergi í þessum samningum er að finna merki um að fallist hafi verið á einhverjar af okkar kröfum í málinu. Allar mögulegar kröfur viðsemjenda okkar hafa verið samþykktar. Menn geta gert mikið úr því að við höfum fengið greiðslufrest í nokkur ár en það gerist ekkert annað í millitíðinni en að það safnast upp um það bil 200 milljarðar í vöxtum. Eru menn ánægðir með það?

Ég hef sagt oftar en einu sinni eftir að málið kom í þessum búningi inn í þingið að mér þyki þetta vera aðför að sjálfstæði okkar Íslendinga. Ég geri mér grein fyrir því að ég tek stórt upp í mig með þessum orðum en hvað annað getur maður sagt þegar menn viðurkenna grímulaust að lánsbeiðni okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi verið tekin í gíslingu í þessu máli? Þegar allar Evrópuþjóðirnar segja það berum orðum, ýmist á fundum með fjármálaráðherra okkar á síðasta ári eða í samskiptum, að okkur Íslendingum standi engin lán til boða fyrr en við höfum fallist á kröfur Breta og Hollendinga um lausn á þessu máli. Þegar efni samningsins er með þessum hætti getur maður ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að þegar smáþjóð eins og Ísland á í hlut eigi það að vera krafturinn, stærðin og völdin sem stærri ríkin hafa yfir smærri ríkjunum sem eigi á endanum að ráða úrslitum. Ef við erum sátt við að gefa eftir í samskiptum okkar við önnur ríki, t.d. á grundvelli EES-samningsins, stóran hluta af sjálfstæði okkar og ekki bara þann hluta sem fylgir framsali hvers ríkis sem vill taka þátt í slíku alþjóðlegu samstarfi heldur miklu stærri hluta á þeim forsendum að við séum minni en hinir — þetta sætta menn sig við nú.

Við sjálfstæðismenn höfum sagt frá upphafi að við ætlum ekki að láta þvinga okkur til einhverra afarkosta í þessu máli. Við ætlum ekki að samþykkja pólitíska afarkosti. Við höfum allan tímann sagt: Við viljum virða okkar alþjóðlegu skuldbindingar og við erum tilbúin til þess að leggja mikið af mörkum til lausnar á deilunni. Vandinn hefur aldrei verið Íslandsmegin í þessu máli. Hann hefur allan tímann verið hjá viðsemjendum okkar sem hafa beitt okkur bolabrögðum og lagt fyrir okkur núna lausn í málinu sem er fullkomlega óásættanleg og ætti að vera það fyrir hvert og eitt okkar hér í salnum. Þess vegna er það alveg óskiljanlegt að ríkisstjórnin hafi valið þann kostinn í þessu máli að tengja það við einkavæðingu bankanna, löngu liðna atburði og það sem fyrri ríkisstjórn gerði og gera þetta að innbyrðis átakamáli milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi.

Þetta mál snýst um vörn fyrir hagsmuni Íslands gegn ásælni stóru, freku ríkjanna sem hlusta ekki á nein rök og láta ekki bjóða sér að ágreiningur verði leystur fyrir dómstólum. Hvenær í ósköpunum mundu Bretar eða Hollendingar sætta sig að vera hafnað um þá leið að bera ágreining fyrir dómstóla ef þeir teldu sig ekki bera skuldbindingu samkvæmt lögum til að vera þvingaðir til niðurstöðu í slíku máli? Ég er sannfærður um að ef menn leiða hugann að því og gefa þessu álitaefni gaum komast menn að sömu niðurstöðu og ég. Aldrei mundu Bretar, Hollendingar eða nokkur önnur Evrópuþjóð láta fara svona með sig eins og ríkisstjórnin leggur til að við gerum í þessu máli. Enda hefur komið á daginn að í hvert sinn sem við höfum látið þá sem hafa hæst um skyldur okkar til að leiða málið til lykta á þessum forsendum standa frammi fyrri því að neyða okkur til niðurstöðu í málinu hafa þeir gefið eftir. Þeir eru farnir að benda hver á annan. Ekki ég, það var hinn. Nei, það var ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, það var Svíþjóð. Nei, það var ekki Svíþjóð, það var Noregur. Nei, við Bretar vorum aldrei að þvinga neinn til eins eða neins. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn …)

Þær falla eins og dómínó-spil, þessar kenningar sem ríkisstjórnin býður hér upp á og eru forsenda þess að við eigum ekki að eiga neina aðra lausn. Við eigum að standa í lappirnar í þessu máli og ekki að sætta okkur við neina pólitíska afarkosti. Við eigum að standa saman um að verja íslenska hagsmuni gegn ásælni útlendinga sem ætla að reyna að valta yfir okkur með stærð sinni og frekjuskap. Það er það sem þetta mál snýst um. (Forseti hringir.) Því er alls ekki hægt að halda fram með rökum að þeir sem tala svona hafi ekki verið tilbúnir til þess að leiða málið til lykta á sanngjörnum forsendum.