138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:18]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Icesave-málið hefur verið þingi og þjóð erfitt viðfangs. Það er eðlilegt enda málið vont í sjálfu sér og erfitt að þurfa að kyngja því að þjóðin og ríkið skuli þurfi að gjalda fyrir ábyrgðarlausa ævintýramennsku einkavædds íslensks banka. Þannig hefur það þó verið frá bankahruninu að Íslendingar hafa ekki átt neina góða kosti. Hversu mjög sem menn predika að fara skuli aðrar leiðir yfir lausn Icesave-deilunnar eða annarra mála sem snerta fjárhag ríkisins og stöðu þjóðarbúsins er það ekkert annað en villuljós þegar því er haldið fram að til séu auðveldar leiðir eða góðir kostir. Allar tillögur sem hér hafa komið fram í umræðum eru því marki brenndar að þeim fylgir óvissa sem er ekki síst minni en sú niðurstaða sem ríkisstjórnin náði fram í samningum við Breta og Hollendinga.

Það er bjargföst sannfæring mín að þeir efnahagslegu og lagalegu fyrirvarar sem settir eru í fyrirliggjandi frumvarpi lágmarki hættuna á því að Íslendingar fái ekki staðið undir skuldbindingum sínum vegna Icesave-reikninganna. Sem ríki berum við siðferðilega ábyrgð á hruni íslenska bankakerfisins og því mikla tjóni sem það hefur valdið erlendum aðilum. Þá ábyrgð verðum við að axla ef við ætlum að vera þjóð meðal þjóða og njóta trausts í viðskiptum og gagnkvæmra samskipta landa á milli sem eru okkur lífsnauðsyn og hafa aldrei verið mikilvægari en á þessum missirum.

Sem ríki skuldbundum við okkur með fjölmörgum yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda fyrir og eftir hrun. Við hétum því að styðja íslenska tryggingarsjóðinn til þess að hann gæti staðið við lágmarks innstæðutryggingu samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins og reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Sem dæmi má nefna bréf þáverandi fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesens, og þáverandi seðlabankastjóra, Davíðs Oddssonar, til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í nóvember 2008. Í því bréfi segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar.“

Sem ríki tókum við upp vörn fyrir Íslendinga eftir hrunið með sérstökum neyðarlögum og ráðstöfunum stjórnvalda í kjölfarið. Í þeim fólst að innstæður í útibúum bankanna hér á landi voru tryggðar til fulls. Það hefur síðan verið keppikefli okkar að tryggja að neyðarlögin og ráðstafanir stjórnvalda yrðu ekki vefengdar af dómstólum enda hefur hvert ríki neyðarrétt til þess að verja sína þjóð. Það styrkir málflutning okkar til stuðnings þessum ráðstöfunum að við höfum samið við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi um að við ábyrgjumst lágmarkshluta af innstæðum í útibúum Landsbankans erlendis. Álit ESA sem kynnt var í dag er einnig mikilvægt til stuðnings okkar málstað. Alþjóðasamfélagið gerir kröfu um að við leysum þetta mál með samningum og það hefur leynt og ljóst verið forsenda þeirrar aðstoðar sem við höfum fengið í formi lánafyrirgreiðslu.

Margir hafa haldið því fram að við höfum verið undir sérstökum hótunum og þvingunum í þessu máli. Satt er að við höfum ekki átt neina bandamenn sem hafa tekið undir okkar málflutning en rétt er að hafa í huga að í hinni alþjóðlegu bankakreppu sem leikið hefur marga ríkissjóði og margar þjóðir illa hefur engin þjóð treyst sér til annars en að vísa á þá sömu leið og okkur var ráðlagt að fara, þ.e. leið samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samvinnu við seðlabanka annarra ríkja í þeim farvegi. Stjórnarandstaðan hefur lagt til að ríkisstjórnin taki upp viðræður við Evrópusambandið í þeim tilgangi að það hafi milligöngu um að leiða deilu þjóðanna til lykta. Öll skilaboð sem við höfum fengið frá Evrópusambandinu eru um að við þurfum að standa við lágmarkstryggingu innstæðna og hvað lánskjörin varðar getum við ekki með nokkru móti haldið því fram að þau séu óeðlileg.

Tvíhliða deilur okkar við Breta og Hollendinga skilja eftir sár sem að sjálfsögðu munu gróa um síðir en ákvörðun bresku stjórnarinnar um að beita hryðjuverkalögum í samskiptum við vin og bandamann hefur ekki verið fyrirgefin. Nú hefur samningsþófið um Icesave staðið í rúmt ár og það er mitt mat að ekki verði lengra komist. Í raun ættum við að horfa á að talsverður árangur hefur náðst ef t.d. er miðað við samningaumleitanir í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haardes þar sem fallist var á um 6,7% vexti og 10 ára lánstíma. Í þeim tölvupóstssamskiptum sem Wikileaks hefur birt og þingmenn hafa haft aðgang að síðan í byrjun júní sl., og væntanlega kynnt sér til hlítar, kemur fram að þau lánakjör sem fengust fram í samningum Íslands við Breta og Hollendinga eru betri en þau kjör sem þróunarríkjum, fátækustu ríkjum heims, bjóðast af svokölluðum Parísar-klúbbi í lánaviðskiptum milli ríkja.

Þeir efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi hefur sett fyrir ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna hafa mikla þýðingu. Þeir tryggja að afborganir höfuðstóls þurfa aldrei að fara yfir ákveðið hlutfall af vexti þjóðarframleiðslu. Þannig er tryggt að afborganir munu aldrei sliga þjóðarbúið eins og látið hefur verið að liggja. Gangi endurreisnin hægar en ráð er fyrir gert dregur samhliða úr afborgunum vegna höfuðstóls Icesave-lánsins og endurgreiðslutíminn lengist. Auk þess er í samningunum tryggt að breytist forsendur Íslendinga til þess að standa undir skuldbindingum vegna Icesave-reikninganna mjög til hins verra tryggja endurskoðunarákvæði og Brussel-viðmiðin að ekki verður gengið nærri greiðslugetu þjóðarbúsins. Þar höfum við bakstuðning Evrópusambandsins til tryggingar á sanngirni í viðskiptum við Breta og Hollendinga. Rétt er að hafa í huga að vextir lánsins eru einhverjir lægstu langtímavextir sem veittir hafa verið í Evrópu í sögulegu samhengi. Auk þess getum við greitt lánið upp og endurfjármagnað það hvenær sem er, bjóðist okkur betri lánakjör með öðrum hætti.

Stjórnarandstaðan lætur í veðri vaka í lok 2. umræðu að mörg álitamál séu enn þá uppi vegna fyrirliggjandi frumvarps. Er það svo? Mér er nær að halda að svörin við svokölluðum álitamálum séu að mestu eða öllu leyti fyrirliggjandi í gögnum málsins sem eru þingmönnum aðgengileg. Í öllu falli ætti það ekki að vefjast fyrir fjárlaganefnd að afgreiða málið til 3. umræðu. Í mínum huga er ljóst að það er ekkert misræmi í viðhorfum mínum og forsætisráðherra Bretlands. Það er ágreiningur sem er allt annað en misræmi. Þeim ágreiningi er haldið til haga í samningatextanum við Breta og Hollendinga og á honum munum við byggja leiðréttingu okkar mála fyrir dómstólum ef í ljós kemur þegar tímar líða fram að okkar málstaður hljóti lagalega viðurkenningu í þeim breytingum á regluverki Evrópusambandsins sem fyrir dyrum standa. Í samningunum höldum við til haga lagalegri óvissu um túlkun innstæðutilskipunar ESB og höldum því fram að hún eigi ekki við þegar um kerfishrun er að ræða og ríkinu beri heldur ekki ótvíræð skylda til að hlaupa undir bagga við slíkar aðstæður. Óvissa um lagatúlkun fyrir dómstólum er þó ekki slík að hún réttlæti að hafna samningunum. Slíkt mundi kalla yfir okkur frostavetur í öllum okkar fjárhagslegu samskiptum við önnur lönd. Þar verðum við að horfa kalt og raunsætt til hagsmuna íslensks atvinnulífs og alls mannlífs í landinu á næstu árum.

Það er ekki þjóðarhagur að velja einangrun og innilokun. Hvort sem okkur líkar betur eða verr verðum við að horfast í augu við að við höfum verið einangruð í Evrópu og haldið fram lagatúlkun okkar auk þess sem allar aðrar aðstæður sem hér hafa verið tilgreindar, ekki síst fyrirheit stjórnvalda og forustumanna Sjálfstæðisflokksins haustið 2008, mæla með sáttum og samningum sem opna samskiptaleiðir en loka þeim ekki á ný eins og afneitun alls raunsæis mundi leiða yfir okkur. Hin leiðin, leið stjórnarandstöðunnar, er ófær að mínu viti. Ef ekki væri gengið til samninga við Breta og Hollendinga mundu þeir og önnur ríki, sem öll styðja túlkun Breta og Hollendinga á skuldbindingum Íslands í þessum efnum, líta svo á að Ísland hefði brugðist skuldbindingum sínum. Slík niðurstaða mundi jafngilda greiðslufalli íslenska ríkisins með slæmum afleiðingum fyrir íslenskt atvinnulíf og heimili í landinu.

Ríkissjóður, sveitarfélög, opinber fyrirtæki og jafnvel íslensku bankarnir yrðu væntanlega umsvifalaust felld í ruslflokka af matsfyrirtækjum og lánafyrirgreiðslur til landsins mundu stöðvast eða verða með slíku áhættuálagi að illberanlegt væri fyrir allan venjulegan rekstur og framkvæmdir. Allar áætlanir um erlendar fjárfestingar eða uppbyggingu í íslensku atvinnulífi yrðu settar á ís og við tækju miklir erfiðleikar í atvinnulífi okkar og efnahagslífi. Það tæki okkur mörg ár að endurvekja eðlileg samskipti við umheiminn og slíkt yrði ekki mögulegt fyrr en í fyrsta lagi eftir að niðurstaða fengist í málarekstur Breta og Hollendinga gegn Íslandi vegna innstæðutrygginganna. Slík málaferli gætu tekið mörg ár og allsendis er óvíst um niðurstöðuna. Yrði lagatúlkun okkar Íslendinga ekki ofan á gæti niðurstaðan allt eins orðið sú að byrðar okkar vegna Icesave yrðu tvöfalt meiri en nú stefnir í með samningaleiðinni. Ýmsir hafa haldið því fram að Íslandi beri að greiða innstæður Icesave að fullu, um 1.200 milljarða, í stað þeirra 700 milljarða sem nú hefur verið samið um. Yrði það niðurstaða málaferlanna mundu þær auknu klyfjar bætast ofan á hörmungarnar sem langur frostavetur í efnahags- og atvinnulífi mundi kalla yfir heimili landsins, m.a. í formi langvarandi fjöldaatvinnuleysis og samdráttar á öllum sviðum þjóðlífsins.

Á síðustu vikum hafa komið fram athugasemdir þess efnis að frumvarpið kunni að brjóta gegn stjórnarskránni. Þær athugasemdir tel ég að eigi ekki við rök að styðjast. 40. gr. stjórnarskrárinnar hefur verið nefnd í þessu sambandi, um að ekki megi taka lán er skuldbindi ríkið nema samkvæmt lagaheimild. Sú lagaheimild verði að vera skýr og afdráttarlaus. Í fyrsta lagi er þarna verið að túlka 40. gr. stjórnarskrárinnar líkt og um væri að ræða ákvæði til verndar mannréttindum sem er mjög langsótt. Í öðru lagi er lagaheimildin sem farið er fram á ótvíræð, raunar má segja að hún sé mun skýrari en lög nr. 96/2009 sem verið er að breyta. Það er alveg ljóst hvert hámark ríkisábyrgðarinnar er í evrum og pundum talið. Í þriðja lagi er það hvarvetna svo í hinum vestræna heimi að stjórnarskrár eftirláta löggjafanum og/eða framkvæmdarvaldinu að meta nauðsyn lántöku af hálfu ríkisins. Þekkir einhver dæmi þess að dómstólar í ríki hafi vikið til hliðar lánasamningum ríkis vegna þess að skuldin sé of mikil, vextir of háir eða lánakjör slæm? Meira að segja þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru haldnar um nýsamþykkt lög eru fjárlög og lánsfjárlög einatt undanskilin. Þetta á að vera mat löggjafans og í okkar tilfelli er það mat ríkisstjórnarinnar sem stendur að þessu frumvarpi að af mörgum slæmum kostum sé þessi illskástur.

Eins og gefur að skilja hefur umfang Icesave-skuldbindinganna verið málað mjög sterkum litum í umræðum hér á Alþingi. Það má hins vegar ekki verða til þess að við missum sjónar af þeim fjölmörgu atriðum sem draga munu úr sérstöðu Icesave-skuldbindingarinnar og gera hana að úrlausnarefni en ekki að óviðráðanlegri áþján. Meginhluti skuldarinnar mun væntanlega fást borgaður úr þrotabúi Landsbanka Íslands. Samkvæmt spám Seðlabanka Íslands mun íslenska ríkið ráða vel við að greiða það sem út af stendur þegar þrotabú Landsbankans hefur verið gert upp. Í samningunum eru einnig eins og áður sagði endurskoðunarákvæði á þann veg að versni skuldaþol ríkisins til muna setjist ríkin þrjú sem í hlut eiga aftur að samningaborði.

Hollt er líka að minnst þess að önnur atriði í hag- og peningamálastjórn síðustu ára munu reynast okkur enn dýrkeyptari en Icesave-skuldbindingin og má þar m.a. nefna lán Seðlabanka Íslands til bankanna án fullnægjandi trygginga svo nam hundruðum milljarða. Af því og öðru sem fór úrskeiðis berum við þungan kostnað þegar í dag. Við getum líka glaðst yfir því að margt gengur betur en efnahagsspár gerðu ráð fyrir og að kostnaður við endurreisn bankanna mun verða miklu minni en áætlað var. Endalaus svartsýni er ekki gott veganesti í þeirri baráttu sem fram undan (Gripið fram í.) er. Við þurfum umfram allt að heyja hana á grundvelli fulls raunsæis á okkar stöðu en í jákvæðum og uppbyggilegum anda. Það er kominn tími til þess að ljúka Icesave-málinu á Alþingi og ganga rösklega til annarra verka sem bíða. Þessum þröskuldi endurreisnar verður að ryðja úr vegi.