138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við göngum nú til atkvæðagreiðslu um lýtur að breytingum á þeim lögum sem Alþingi samþykkti í sumar. Því hefur verið haldið fram í umræðunni að engar efnislegar breytingar séu gerðar á frumvarpinu sem máli skipta fyrir þingið eða íslenska hagsmuni. Ég tel að það hafi bersýnilega komið í ljós í nefnd og í þeim umræðum sem farið hafa fram á þinginu að það frumvarp sem við greiðum nú atkvæði um kollvarpar vinnu þingsins frá því í sumar. Fyrirvararnir sem mestu skiptu sem voru eins og öryggisventill eða öryggisnet fyrir hagsmuni okkar Íslendinga, eru að engu orðnir og hafa verið þynntir út að kröfu viðsemjenda okkar. Atkvæðagreiðslan hér snýst því um það öðrum þræði hvort menn eru tilbúnir til að taka stórkostlega áhættu í stað þess að standa við þá vinnu sem þingið lagði í í sumar til að setja (Forseti hringir.) tryggingar inn í framtíðina fyrir íslenska þjóð.