138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um 1. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð …“

Um þetta snýst deilan. Ber okkur einhver skylda til þess? Við höfum heyrt hæstv. fjármálaráðherra halda því fram að fyrri ríkisstjórn sé sú sem hafi lofað þessu. (Gripið fram í: Það er rétt hjá honum.) Við höfum líka fengið lögfræðiálit hingað til þingsins þar sem fræðimenn komust að þeirri niðurstöðu að ekkert af því sem fyrri ríkisstjórn hafi gert skuldbindi ríkið til að gera eitt eða neitt. Við höfum valið. Ríkisstjórnin segir sjálf í frumvarpinu að lagalega skuldbindingin sé ekki til staðar þannig að þessari spurningu ætti á endanum að svara með hliðsjón af því hvort við eigum að láta þvinga okkur til þess að fallast á allar kröfur viðsemjenda okkar eða ekki, hvort við höfum einhverja sjálfsvirðingu, hvort við getum gert þá kröfu að þessi ágreiningur verði leiddur til lykta með því að taka tillit til allra þeirra sem að málinu koma. Það er ekki verið að gera hér. Hér er verið að leiða okkur til niðurstöðu í máli (Forseti hringir.) með því að taka okkur í gíslingu, beita okkur þvingunum og hótunum og við eigum ekki að sætta okkur við það. Ég segi nei.