138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í þeirri grein sem hér er til atkvæða er gerð grundvallarbreyting á því máli sem Alþingi staðfesti í lok ágúst. Hér er gert ráð fyrir því að veita ráðherra heimild til að veita ríkisábyrgð án þess að íslensk lög takmarki hana við ákveðna fyrirvara eins og Alþingi gekk frá í haust. Þar með er verið að gera grundvallarbreytingar á þessu máli eins og Alþingi gekk frá því, fyrirvararnir sem við settum eru ónýtir.

Nú liggur fyrir að mikil samstaða var á Alþingi í sumar og haust um þessa gjörð. Það liggur fyrir að tæplega 32 þúsund manns skora á Alþingi að standa áfram vörð um þjóðarhagsmuni og að alþingismenn berjist fyrir málstað Íslands. Hér er tillaga frá ríkisstjórninni sem kveður á um það að Alþingi leggi niður vopnin. Ég er ekki tilbúinn til þess og segi nei.