138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Icesave-samningurinn er ekki orsök þess vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir heldur er hann afleiðing. Icesave-skuldin sem Alþingi ákvað fyrir ári síðan að Íslendingar skyldu semja um við Breta og Hollendinga er arfleifð hrunadansins sem hlaust af 18 ára stjórnarháttum og stefnu Sjálfstæðisflokksins, flokksins sem ber höfuðábyrgð á því fjármálahruni sem hér varð í fyrra. Málið í heild sinni er úrvinnsluefnið sem við fengum í hendur og við verðum að útkljá af ábyrgð eins og siðaðar manneskjur. Þetta er bjargið sem við verðum að ryðja úr brautinni og opna þar með leið okkar til endurreisnar og eðlilegra mannsæmandi viðskipta við aðrar þjóðir.

Ég tel að allt hafi verið gert sem hægt er til að leiða þetta mál til lykta á sem farsælastan hátt fyrir land og þjóð. Í þeirri vissu, virðulegi forseti, segi ég já við þessari og öðrum greinum frumvarpsins.