138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp að lögum sem bresk og hollensk stjórnvöld ætla að setja Íslendingum með liðsinni ríkisstjórnar Íslands. Það er rökstutt af stjórnarliðum af ótta, af órökstuddum ótta reyndar, vegna þess að hann virðist byggja á því að við þurfum að fallast á þessar kröfur til að kaupa okkur velvild í einhverju óskilgreindu alþjóðasamfélagi. Ef við gerum það ekki, ef við leggjumst ekki flöt og samþykkjum allt sem við erum krafin um á þann hátt sem viðsemjendur okkar ætlast til séum við á einhvern hátt að segja okkur úr alþjóðasamfélaginu. Þetta lýsir ákaflega undarlegri sýn á alþjóðasamfélagið. Maður veltir því fyrir sér hvort fólk með slíka sýn á önnur lönd og alþjóðasamfélagið sé til þess fallið að annast samskipti okkar við það alþjóðasamfélag. En höfum hugfast að með þessu frumvarpi er ekki verið að ryðja úr vegi hindrun fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs heldur að festa þá hindrun varanlega í sessi. Ég segi nei.