138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Með því að í þessu ákvæði stendur að við Íslendingar viðurkennum enga ábyrgð á þeirri upphæð sem hér um ræðir er augljóst, verði þetta frumvarp að lögum, að það er verið að þvinga okkur til að ganga að þessu máli. Ríkisstjórnin hefur í öllu þessu máli haft uppi hótanir til okkar, landsmanna, um að ef ekki verður sagt já muni ýmsir hlutir gerast sem okkur verða mjög í mót.

Það hefur verið sagt að ekki verði hægt að hefjast handa við endurreisn bankanna nema búið sé að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Það hefur verið sagt að ekki sé hægt að fá lán frá Norðurlöndunum nema búið sé að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Það hefur verið sagt að ekki verði hægt að fara í aðra endurskoðun Alþjóðgjaldeyrissjóðsins nema búið verði að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Og það hefur verið sagt að ekkert væri hægt að gera í fjármálum heimilanna nema búið verði að ganga frá Icesave-samkomulaginu.

Allt þetta, frú forseti, hefur reynst rangt, ekkert af þessu hefur reynst rétt hjá ríkisstjórninni. Það er búið að opna fyrir lánalínur frá Norðurlöndunum, núna er búið að endurreisa tvo af þremur bönkum (Forseti hringir.) og það er búið að samþykkja hér lög um fjármál heimilanna. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Þetta er auðvitað hluti af því sem gerir það að verkum að það er ekki hægt að hlusta á þessar hótanir lengur. Ég segi nei.