138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er stundum sagt að sumir séu fastir í 2007 en hæstv. félagsmálaráðherra er fastur einhvers staðar á haustdögum 2008 og virðist ekki hafa fylgst með því sem hefur gerst í millitíðinni.

Það var vissulega samþykkt hér á þingi með atkvæðum sjálfstæðismanna að leita samninga, reyna að fara samningaleiðina, en það var skýrt tekið fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar — sem hæstv. félagsmálaráðherra ætti að þekkja býsna vel — að ef ekki næðist viðunandi niðurstaða áskildi Alþingi sér allan rétt til að leita annarrar niðurstöðu. Þess vegna fólst ekki nein skuldbinding fyrir okkur, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eða aðra í því að samþykkja þann samning sem hér liggur fyrir í því að við samþykktum í desember að leita samninga. Það er algjör rökleysa að halda slíku fram.

Þetta ákvæði sem við erum að tala um hér sérstaklega er eins og önnur ákvæði frumvarpsins, felur í sér að það er verið að eyðileggja og grafa undan þeim fyrirvörum og öryggisventlum sem settir voru í sumar. Ég segi nei.