138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:06]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Verði þessi grein að lögum er verið, eins og komið hefur fram, að útþynna þá fyrirvara sem settir voru í haust. Við vorum sammála um það, hv. þingmenn, að gera þyrfti svokallaðan efnahagslegan fyrirvara vegna þess að við gætum ekki sett landið okkar í þá hættu að ef hér gengi illa — og ég segi ef því að vonandi verður það ekki svo — ef hér yrði lítill hagvöxtur, jafnvel neikvæður, mundum við í því tilviki sem hagvöxturinn yrði lítill borga lítið og ef hagvöxtur væri enginn þá samsvarandi greiðslur. En núna, með því að þetta ákvæði verði að lögum, er verið að kippa þessu úr sambandi og segja: Sama hvernig árar á Íslandi, sama hvernig gengur, sama hvort okkur miðar áfram eða ekki eigum við að standa skil á öllum vaxtagreiðslunum. Það geta, frú forseti, orðið þungar og óbærilegar byrðar (Forseti hringir.) ef svo stendur á í okkar þjóðarbúskap. Því hljótum við að segja nei við þessu.