138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um endurskoðunarákvæði þessara samninga. Þrátt fyrir þann hræðsluáróður sem fluttur hefur verið af stjórnarandstöðunni og fullyrðingar um að íslenska þjóðin sé að fara á hausinn og geti ekki með neinu móti staðið við þær skuldbindingar sem hafa verið settar á okkur horfir hún fram hjá því að 3/4, ef ekki 80%, af þeim skuldum sem við erum að glíma við eru ekki frá Icesave heldur frá öðrum aðilum. Það gengur eiginlega einum of langt þegar menn horfa svo á þessa grein sem er búið að styrkja verulega mikið, þar sem það er íslenska þingið sem mun geta óskað eftir viðræðum um það að taka upp samningana aftur, og finna henni allt til foráttu. Þar á að taka tillit til stöðu í þjóðarbúskapnum og ríkisfjármálum á hverjum tíma, mats á horfum í þeim efnum þar sem m.a. verður sérstaklega litið til gjaldeyrismála, gengisþróunar og viðskiptajafnaðar, hagvaxtar og breytingar á landsframleiðslu, svo og þróunar fólksfjölda og atvinnuþátttöku. Þetta er fyrirvari sem við höfum til þess að taka málið (Forseti hringir.) hér upp eftir fá ár og skoða málið að nýju og það er með ólíkindum að menn skuli vera á móti greininni. Ég segi já.