138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að í þessu ákvæði er vísað til endurskoðunarmöguleika á samningum sem eru þá einhliða yfirlýsing Alþingis um að það vilji endurskoða samninginn hugsanlega fyrir einhver ár. En ég verð að segja að mér finnst alveg með ólíkindum sú bjartsýni hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni og öðrum þingmönnum sem leggja mikið upp úr þessu ákvæði að það verði einhver staða til þess að gera slíka kröfu á hendur viðsemjendum okkar á þeim tíma. Þá verða þeir búnir að vera með í höndunum áritaða lánssamninga og skuldabréf árum saman án þess að fá greiðslur af höfuðstól og akkúrat þegar við eigum að fara að borga halda menn að við getum komið til þeirra og náð einhverjum hagstæðari kjörum en í dag. Menn ætla sem sagt að undirrita samningana núna, ganga frá ríkisábyrgðinni núna og treysta svo á að geta komið árið 2015 og sagt: Heyrðu, nú eigum við að fara að borga á næsta ári, eigum við ekki (Forseti hringir.) að endurskoða þetta eitthvað?

Mér finnst þetta ótrúleg bjartsýni, sérstaklega hjá þingmönnum sem telja sig núna knúna til þess að samþykkja þessa ábyrgð (Forseti hringir.) á grundvelli þrýstings frá þessum ríkjum.