138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við erum í þeirri stöðu að vera að greiða atkvæði eftir 2. umr. Niðurstöðurnar í þessum atkvæðagreiðslum hafa ekki lofað góðu en við verðum þó enn að binda vonir við að málsmeðferð milli 2. og 3. umr., og síðan það sem kemur fram í 3. umr., muni hugsanlega leiða þeim sem stutt hafa málið fram að þessu fyrir sjónir í hvers konar farvegi það er, í skelfilegum farvegi. Þess vegna vonum við að sú málsmeðferð sem við, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, höfum lagt mikið upp úr að fari fram, verði málefnaleg, fagleg og ítarleg og skili þeim árangri að leiða fram upplýsingar, leiða fram staðreyndir í þessu máli þannig að við getum öll tekið afstöðu á grundvelli þeirra og höfum augun opin þegar við greiðum atkvæði um þetta að lokum eftir 3. umr. en trúum ekki úlfasögum, hryllingssögum og hótunum um frostavetur á Íslandi.