138. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2009.

afgreiðsla nefnda á fjárlagafrumvarpinu.

[19:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég verð að gera alvarlegar athugasemdir við að hér hefur verið dreift nefndaráliti um frumvarp til laga um fjárlög fyrir árið 2010 frá meiri hluta fjárlaganefndar. Samkvæmt 25. gr. þingskapa ber að fá álit hv. efnahags- og skattanefndar á tekjuhlið fjárlaganna og efnahags- og skattanefnd hefur ekki lokið umfjöllun um málið. Við erum enn þá að taka á móti gestum og það er ekki búið að loka málinu hjá efnahags- og skattanefnd.

Ég hefði viljað koma fram með breytingartillögur um tekjuhliðina en ég fékk fyrst upplýsingar um hádegið í dag og hef því ekki getað komið með breytingartillöguna. Ég geri alvarlegar athugasemdir við þessa stjórn á þinginu, fyrir utan að fjárlögin voru tekin út úr fjárlaganefnd með offorsi, síðan tekin inn aftur og afgreidd út í annað sinn. Þetta er náttúrlega ekki til sæmdar þinginu, frú forseti.