138. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2009.

afgreiðsla nefnda á fjárlagafrumvarpinu.

[19:50]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka að heildarniðurstöður liggja fyrir. Það er vissulega óleyst hvernig fara eigi í tæknilegar útfærslur á einstökum málum en heildarniðurstöður liggja fyrir.

Það er alveg rétt sem fram kemur í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann hefur teflt fram þeim valkosti við alla gesti sem komið hafa til efnahags- og skattanefndar hvort það væri ekki þjóðráð að falla frá öllum tekjutillögum ríkisstjórnarinnar og fara að ráði Sjálfstæðisflokksins og skattleggja séreignarsparnað. Það er ekki samstaða um þetta. Meiri hluti nefndarinnar er ekki á því að fara þessa leið, alla vega ekki núna, og heldur sig við sínar tillögur. Það er meiri hluti á bak við þær. Við erum að skoða tæknilegar útfærslur á einstökum atriðum og heimsóknir gesta í dag sneru að (Forseti hringir.) þessu. Hér er ekki um nein óeðlileg vinnubrögð að ræða.