138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

netundirskriftir vegna Icesave.

[10:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur þessa fyrirspurn. Við þekkjum það auðvitað að það er ekki nýtt þegar safnað er undirskriftum til að krefjast ákveðinna hluta eða þjóðaratkvæðagreiðslu, að fólk nýti sér þá lista í óæskilegum tilgangi til einhvers konar brandara eða gamansemi eða hvað við getum kallað það. En að sjálfsögðu er það alvarlegt mál því að það dregur úr trúverðugleika þeirra sem standa fyrir undirskriftasöfnuninni. Ég held því að við getum verið sammála um að þetta er ekki æskileg hegðun, það er ekki til þess fallið að ýta undir framgang lýðræðisins að gera slíkt.

Það hafa borist fregnir af því að þetta hafi m.a. komið frá IP-tölum tengdum Ríkisútvarpinu, frá IP-tölum tengdum Fréttablaðinu og frá IP-tölum tengdum Stjórnarráðinu. Við þurfum auðvitað að hafa í huga í þessum efnum að fólk hefur auðvitað leyfi til að birta skoðanir sínar og meira að segja mjög mikið frelsi til þess, óháð sínum vinnuveitanda. Einmitt þess vegna hafa margir vinnustaðir þá starfsreglu að fólk nýti t.d. sín einkanetföng til að skiptast á skoðunum, þó að það sé með þessum hætti sem við getum verið sammála um að er ekkert sérstaklega málefnalegur, en nýti ekki netföng vinnustaðarins. Það á hins vegar ekki við um IP-tölur. Mig grunar að það sé svo að ef maður gerir það í vinnutíma og frá sínu einkanetfangi birtist IP-tala vinnustaðarins.

Af því að mér fannst hv. þingmaður sérstaklega spyrja um Ríkisútvarpið og fjölmiðlamál, held ég að það sé mjög mikilvægt að Ríkisútvarpið ræði þessi mál innan húss því að við gerum þá kröfu til Ríkisútvarpsins að það standi að hlutlausum fréttaflutningi. En við munum líka að Ríkisútvarpið er sjálfstæð stofnun og þetta mundi heyra undir starfsmannamál þeirrar stofnunar. Ég mundi því telja mjög mikilvægt að þar yrði tekið á þessu máli eins og ég tel mikilvægt að (Forseti hringir.) þessi mál verði rædd innan Stjórnarráðsins með þeim hætti sem ég talaði um hér.