138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

netundirskriftir vegna Icesave.

[10:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég reyndi að varpa ljósi á að auðvitað hafa starfsmenn Stjórnarráðsins sem og aðrir frelsi til að viðra sínar skoðanir. Hins vegar held ég að það sé mjög mikilvægt að þeir velji þann vettvang sem þeir nýta til að viðra sínar skoðanir á og það er kannski stóra málið sem við ræðum hér og ég held ekki að það sé eitthvað sem við þurfum að ræða yfir tesopa. Ég held að það skipti máli að Stjórnarráðið skoði hvaða reglur það muni hafa í gildi við að setja fram … (PHB: Hvað ætlarðu að gera?) — Ég tel að þetta verði rætt innan Stjórnarráðsins, (Gripið fram í.) svo ég svari spurningu hv. þingmanns úr sal, en við þurfum að horfa á þetta mál til framtíðar. Það sem hv. þingmaður Þorgerður K. Gunnarsdóttir bendir fyrst og fremst á er að það er örugglega ekki í fyrsta sinn sem þetta kemur upp og ég held að það sé það sem málið snýst um. Við getum rætt um það og ég er viss um að þeir vinnustaðir sem hér hafa sérstaklega verið nefndir munu vafalaust taka þetta líka til skoðunar innan húss hjá sér.