138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

hlutur heilbrigðisráðherra í mótmælum í janúar.

[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í viðtal sem var í Morgunblaðinu þar sem hún er harðlega gagnrýnd fyrir framgöngu við mótmæli sem áttu sér stað við Alþingishúsið. Þar gagnrýnir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra fyrir framgöngu hennar í mótmælunum á Austurvelli í fyrravetur. Það verður að segjast eins og er að hann er býsna harðorður gagnvart ráðherra vegna framgöngu hennar og telur að hún hafi m.a. beitt sér fyrir mótmælendur í þinghúsinu.

Í frétt frá Ríkisútvarpinu 23. nóvember 2008 var viðtal við hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra. Þar segir hún um handtöku ungs manns sem flestir þekkja, þegar hann var tekinn og settur inn á lögreglustöðina, að það hafi verið hefndarráðstöfun lögreglu gegn mótmælendum að handtaka manninn, að þar hafi lögreglan verið að hefna sín á mótmælendum. Í fréttinni segir frá því þar sem mótmælendur við Hverfisgötuna brutu a.m.k. fimm rúður í lögreglustöðinni, beittu gangstéttarhellum til að brjóta glugga og sóttu síðan stærðarinnar viðardrumb og reyndu að brjóta með honum innri hurðina í anddyri lögreglustöðvarinnar. Síðan segir:

„Álfheiður kveðst ekki geta lagt mat á það hvort mótmælendur hafi gengið of langt.“

Er hæstv. ráðherra enn þá þeirrar sömu skoðunar að lögreglan hafi verið að hefna sín á mótmælendum þegar þetta átti sér stað? Telur ráðherrann ekki ástæðu til að hún biðji lögregluna afsökunar á sínum þætti í mótmælunum og þeim ummælum sem hún lét falla í kjölfar þeirra?

Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er m.a. sú gagnrýni sem komið hefur fram hjá lögreglunni og það er mjög mikilvægt að við vitum hvort þingmenn sem hér eru kjörnir treysti lögreglunni líkt og þorri þjóðarinnar gerir í öllum könnunum sem gerðar eru.