138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Seðlabankann.

[10:50]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar vegna nýútkominnar skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis varðandi endurskoðun á ríkisreikningi síðasta árs.

Í skýrslunni er farið í löngu máli yfir það tap sem ríkissjóður varð fyrir vegna Seðlabanka Íslands og rakið er nokkuð ítarlega hvernig til þess kom að Seðlabankinn komst í þrot þannig að ríkissjóður þurfti að leggja bankanum til umtalsvert fé til að forða honum frá gjaldþroti. Það kemur glöggt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að stjórnendur Seðlabankans brugðust ekki við því alvarlega ástandi sem var að skapast í efnahagslífinu hér á landi fyrr en það var orðið of seint og þá var of lítið gert. Ríkisendurskoðun fullyrðir að stjórnendum Seðlabankans hafi mátt vera það ljóst í tíma í hvað stefndi og spurt er í skýrslunni hvers vegna í ósköpunum stjórnendur bankans brugðust ekki fyrr við og hefðu þannig geta dregið verulega úr því mikla tjóni sem ríkissjóður varð fyrir vegna bankans.

Það er rétt að taka það fram að í athugun Ríkisendurskoðunar kom ekkert í ljós sem bendir til þess að starfsmenn Seðlabankans hafi ekki virt eða fylgt þeim vinnureglum sem þeim bar að vinna eftir varðandi þessi mál. Athugasemdir Ríkisendurskoðunar virðast því fyrst og fremst beinast að æðstu stjórnendum bankans.

Í þessu ljósi og þess hversu alvarlegar afleiðingar aðgerðir Seðlabankans hafa haft á íslenskt efnahagslíf langar mig til að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort ráðherrann telji ástæðu til að fram fari sérstök rannsókn á aðkomu stjórnenda Seðlabankans í aðdraganda efnahagshrunsins eða þá jafnvel hvort slík rannsókn sé þegar hafin að frumkvæði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Sömuleiðis má spyrja að því hvort ástæða sé til að slík rannsókn eigi að ná lengra aftur í tímann hvað Seðlabankann varðar.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að endurskoða þurfi lög um Seðlabankann í þeim tilgangi m.a. að auka á ábyrgð æðstu stjórnenda bankans og þá með það að markmiði að reyna að koma í veg fyrir að axarsköft af því tagi sem má lesa úr skýrslu Ríkisendurskoðunar að æðstu stjórnendur Seðlabankans hafi gert sig (Forseti hringir.) seka um, endurtaki sig ekki.