138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

tillögur starfshóps um heilbrigðismál.

[10:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er kærkomin skýrsla, kostnaðar- og ábatagreining á tillögum um tilfærslu verkefna milli kragasjúkrahúsanna og Landspítala. Það er rétt að niðurstaða hennar er að flutningur allra fæðinga og allra skurðaðgerða frá minni sjúkrahúsunum í kraganum á Landspítalann og flutningur legusjúklinga frá Landspítala út á kragasjúkrahúsin í meira mæli en nú er gert geti, miðað við þær gefnu forsendur sem hér eru, skilað 1,4 milljarði í sparnað eða hagræðingu án þess að skerða þjónustu. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvæg niðurstaða sem ber að skoða og fara mjög nákvæmlega ofan í.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra hyggist gera eitthvað með þessa skýrslu. Já, hér er svo sannarlega komið mjög gott verkfæri til að vinna áfram að hagræðingu og tilflutningi verkefna á milli þessara stofnana en það verður ekki gert með valdboði að ofan. Ég vil vekja athygli á því að þær 1.400 milljónir sem hér eru nefndar miðast við rekstur sjúkrahúsanna eins og hann var á árinu 2008, þ.e. fyrir hrun. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, m.a. hefur kostnaður við rekstur kragasjúkrahúsanna verið lækkaður um yfir 500 millj. bara á þessu ári og á næsta ári er fyrirhugað að lækka þann kostnað enn meira, um 300–400 millj. til viðbótar. Það er því alls ekki sami munur og var á þessum sjúkrahúsum (Forseti hringir.) en þetta er mikilvægt verkfæri til að leiðbeina okkur áfram um rekstur og hagræðingu á þessu svæði.