138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum ekki ósáttir, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, um að það eigi að bókfæra hlutina rétt. Það gerum við eftir þeim reikningsskilareglum sem hafa verið samþykktar og að ráði þeirra, það hefur verið unnið í samráði við Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytið með hvaða hætti eigi að gera þetta. Hv. þingmaður getur haft þá skoðun að það eigi að loka og hætta við tónlistarhúsið. Það er þá sérákvörðun í þinginu en ekki ákvörðun fjárlaganefndar einnar og sér að stinga upp á slíku. Við ætlum fyrst og fremst að sjá til þess að þær skuldbindingar sem við tökum á okkur séu rétt færðar í bækur og áætlanir.

Ég þakka hv. þingmanni líka fyrir að upplýsa það sem ég held að sé mikilvægt í umræðunni varðandi Icesave að áhættan sem oft er talað um, þ.e. að hugsanlega geti komið upp sú staða að við séum í vandræðum, að hann sætti sig ekki við meira en 3% líkur. Þá sleppir hann algerlega því sem er inni í samningunum, að það er gert ráð fyrir endurskoðun. (PHB: Hún er handónýt.) Hv. þingmaður getur haft þá skoðun að vilja mála skrattann á vegginn með því að lýsa því þannig að enginn muni taka mark á því sem þeir voru að skrifa undir. Ég er alls ekki sammála því og svara þessu svona skarpt vegna þess að mér finnst menn hafa gert allt of mikið úr þessum þáttum. (Gripið fram í.) Við eigum auðvitað að færa þessa skuldbindingu og það eru til ákveðnar hugmyndir um það sem eru fyrst og fremst að færa vextina. Síðan hver heildarábyrgðin er eins og hefur komið fram í umræðunni og síðan verður hún færð upp á hverju ári í samræmi við hvernig endurheimtist úr búi Landsbankans. Við munum að sjálfsögðu fylgja þeim reglum sem settar verða um þetta og það er ekki verið að fela neitt andstætt því sem oft hefur verið áður.

Varðandi Íbúðalánasjóð er auðvitað fleira inni í kostnaði hjá honum en launakostnaður en að sjálfsögðu þarf Íbúðalánasjóður eins og áður að gæta hagræðis og taka á sig niðurskurð eins og aðrar stofnanir í sínum rekstri. Það hefur sýnt sig að stofnunin er ein af þeim mikilvægustu í okkar lánakerfi og verður það áfram þannig að við skulum búa vel að henni (Forseti hringir.) og sjá til þess að hún geti sinnt sínu hlutverki.

(Forseti (RR): Forseti minnir þingmenn á að gæta hófs í orðavali.)