138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson deilum áhyggjum af þessu atriði vegna þess að vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur. Þó eru það vissulega vonbrigði, þar sem sú ríkisstjórn sem hér stjórnar lofaði að mikið verkstjórnarvit yrði innleitt sérstaklega með nýjum forsætisráðherra, að ekki sé skýr stefna. Nú eru tvær vikur eftir af árinu og það er svolítið sorglegt að ekki sé búið að vinna þessi skilaboð sem ættu að vera skýr. Þetta er bara spurning um að þora að taka ákvörðun.

Hv. þingmaður vísaði til þess að þetta mundi allt saman skýrast þegar lokafjárlögin fyrir árið 2008 kæmu fram. Þá er vert að spyrja: Hver er staðan á því? Skildi ég hv. þingmann rétt að það sé ekki meiningin að þau komi inn og verði kláruð fyrir 3. umr. þessa máls sem við ræðum í dag? Það er þá miður og veldur því að þetta verður allt enn óskýrara.

Þrátt fyrir þessa júníyfirlýsingu skilst mér að það liggi fyrir að einhver ráðuneyti hafi ekki unnið eftir þessu, þar á meðal liggja samkvæmt mínum upplýsingum frammi bréf frá menntamálaráðuneyti þar sem fram kemur að það hafi ekki verið gert. Þá langar mig að spyrja: Er það rétt skilið hjá mér að svo sé? Er algengt að ekki hafi verið unnið eftir þessari júníyfirlýsingu í ráðuneytunum og er þá ekki á hreinu að fjárlaganefnd viti af því? Mér skilst að upplýsingar úr fjárlagabókhaldi ríkisins bendi til þess að verulegur fjöldi stofnana hafi nýtt þessar ónotuðu fjárheimildir á þessu ári. Það gengur þá þvert á þessar yfirlýsingar stjórnvalda sem eru þá væntanlega ekki nógu skýrar.