138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Um það mál sem hér liggur fyrir, frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2010 og þær tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir hér við 2. umr., má hafa mörg orð. Þegar maður lítur yfir vinnslu þessa máls og niðurstöður í tengslum við þær tillögur sem hér liggja fyrir hvarflar oft að manni sú hugsun að hér sé mikill losarabragur á verklagi og lausung í vinnu. Það sem þó er kannski alvarlegast í þessum efnum er að niðurstöður tillagna meiri hluta fjárlaganefndar, sem að hluta til eru unnar á grunni tillagna ríkisstjórnarinnar, virðast mér benda til þess að menn horfist ekki í augu við þann vanda sem ríkisbúskapurinn býr við og skirrist við að taka á þeim vandamálum sem þar er um að ræða.

Ég vil geta þess að ég mæli fyrir nefndaráliti sem er á þskj. 394 um 1. mál þingsins. Nokkuð hefur borið á því í þeirri umræðu að fyrirmæli séu óskýr og það kom síðast fram í andsvörum hv. þingmanna við framsöguræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar. Ég get tekið undir þá gagnrýni sem lýtur að þessari meðferð á svokölluðum ónotuðum fjárveitingum. Þar eru greinilega mjög óskýr skilaboð á ferð, það er eins og ekkert bóli á skýrum fyrirmælum og ekki sé vilji til þess að takast á við þennan vanda. Raunar má segja að meiri hluti fjárlaganefndar hafi tekið undir sjónarmið minni hlutans um þessa lausung því að í nefndaráliti hans segir frá fyrri umræðu, með leyfi forseta:

„Ljóst er að agaleysi hefur verið og er í fjármálum ríkisins og eftirfylgni með fjárlögum óviðunandi. Hvetur meiri hlutinn því eindregið til breyttra vinnubragða við fjárlaga- og áætlunargerð ríkisins þar sem horft er til lengri tíma í senn og að markmið og stefnumótun liggi fyrir.“

Með vísun til þeirra orða sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson hafði hér áðan fögnum við í stjórnarandstöðunni að sjálfsögðu góðum áformum og hvetjum meiri hlutann til þess að leggja rækt við þetta verkefni að koma betri skikk á vinnubrögðin. Við lýsum því að sjálfsögðu yfir að við séum tilbúin og reiðubúin til þess að vinna að því máli með þeim. Ég minni raunar á þingsályktunartillögu sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er 1. flutningsmaður að og lýtur að þessu verkefni. Hún snýr að því að fjárlaganefnd fái betri aðgang að upplýsingakerfum ríkisins við sína vinnu og störf.

Þegar við erum í þessari umræðu um agann, lausungina og þau tök sem fjárlagafrumvarpið er tekið er full ástæða til þess að rifja upp yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem fram komu í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í október. Þar segir svo um trúverðugleika fjárlaganna, ég ætla að vitna með leyfi forseta orðrétt í texta ríkisstjórnarinnar með frumvarpinu:

„Trúverðugleiki fjárlaga hefur afgerandi þýðingu þegar fram undan er árabil mikils og nauðsynlegs aðhalds í útgjöldum ríkissjóðs. Trúverðugleikinn er m.a. kominn undir vilja og getu ríkisstjórnar, ráðuneyta og stofnana til að halda útgjöldum ríkissjóðs innan heimilda fjárlaga. Áhersla er lögð á að öll lagafrumvörp sem tengjast fjárlögum 2010 og þurfa að afgreiðast frá Alþingi fyrir árslok 2009 hafi verið lögð fram á Alþingi fyrir miðjan nóvember nk. Þá er við það miðað að einstaka ráðherrar skili til ráðherranefndar um ríkisfjármál í byrjun desember nk. drögum að breytingum á reglugerðum og útfærðum ákvörðunum sem tengjast áformuðum samdrætti í útgjöldum ríkisins eða tekjuöflun. Fjármálaráðherra mun á haustdögum leggja fyrir ríkisstjórn til afgreiðslu verklagsreglur og viðmiðanir sem auka á trúverðugleika fjárlaga og styrkja framkvæmd þeirra.“

Ekki síst í ljósi þessara orða er rík ástæða til þess að spyrja hvernig og hverjar efndir ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á þessum alvöruþrungnu og góðu orðum eru. Áður en ég nefni nokkur dæmi til staðfestingar á því er rétt að geta þess að þegar við höfum varpað upp gagnrýni í þessa veru í fjárlaganefnd hefur oft verið dreginn upp á borðið samanburður við gerð fjárlaga fyrir árið 2009 sem unnin voru í október til desember á síðasta hausti. Í mínum huga er slíkur samanburður alls ekki tækur, einfaldlega vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur haft tíu mánuði til að vinna að undirbúningi fjárlaga fyrir árið 2010 og að hluta til má segja að hún hafi tekið til höndum við gerð bandormsins þegar hann var samþykktur í júní. Það er ósanngjarnt að gera sömu kröfur til vinnu við fjárlög ársins 2010 og gera átti til fjárlagagerðar fyrir árið 2009, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi að aðdragandinn að fjárlagafrumvarpi ársins 2010 er til muna lengri en þær örfáu vikur sem Alþingi hafði á haustdögum í fyrra til þess að vinna nýtt fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár algjörlega frá grunni. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2009 kom fram í byrjun október, síðan hrundi íslenskt fjármálakerfi og þá var það frumvarp sem þá var lagt fram algjörlega tekið í nefið og á nokkrum vikum varð að vinna fjárlög íslenska ríkisins fyrir komandi ár. Það er ósæmandi að bera það álag og vinnu sem Alþingi stóð undir þá saman við þann rúma tíma sem menn hafa haft til verka nú.

Hvernig er þá staðan í ljósi þeirra áherslna sem ríkisstjórnin lagði í fjárlagafrumvarpi sem hún kom fram með í sl október? Tekjuhlutinn er í ólestri, það var einfaldlega viðurkennt, ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem fyrirhugað er að gera á honum, boðuð skattafrumvörp í fjárlagafrumvarpinu áttu að koma fram um miðjan nóvember. Það liggur einfaldlega fyrir í vinnu Alþingis að það var mælt fyrir skattafrumvarpinu núna 5. desember sl. Fjárlaganefnd fékk tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi fjárlagagerðina til meðferðar 7. desember og hafði einungis sólarhring til þess að liggja yfir þeim. Á þeim sólarhring tóku talnagögn fjármálaráðuneytisins stöðugum breytingum á meðan nefndin hafði þessi gögn undir höndum. Ég vil nefna sem dæmi að lykiltölur um sjóðsstreymi tóku umtalsverðum breytingum rétt áður en málið var tekið út úr nefndinni og það er rétt að nefna það hér hið fyrra sinn. Þetta er veruleikinn sem við blasir og í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt þó að höfð séu uppi orð um að nokkur lausung eða losaratök séu á því hvernig með fjárlagafrumvarpið er og hefur verið farið.

Í raun má segja að meginverkefni Alþingis sé tvíþætt í þeirri vinnu sem hér fer fram. Annars vegar að afla nauðsynlegra tekna fyrir ríkissjóðinn og skapa skilyrði til þess að af slíkum tekjuauka geti orðið. Það gerist ekki nema með því að ýta undir verðmætasköpun hvarvetna í þjóðfélaginu og leggja þannig töluvert af mörkum til þess að atvinna aukist og atvinnulífið taki við sér. Hitt verkefnið er að auka enn frekar aðhald í starfsemi ríkissjóðs ef menn vilja sjá til þess að við komumst út úr þeim vanda sem við er að glíma.

Því má ekki gleyma í umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010 að við erum ekki eingöngu að taka til þess árs og verðum að horfa til lengri tíma. Það er óhjákvæmilegt miðað við þá stöðu sem uppi er í ríkisbúskapnum að það verði horft til verulegra aðhaldsaðgerða á árinu 2011 og ríkisstjórninni ber skylda til þess að taka þær ákvarðanir sem þvílíkum verkefnum fylgja. Engu að síður var gert ráð fyrir því í samstarfsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda að árið 2010 yrði erfiðasta árið varðandi þá aðlögun sem ríkisbúskapnum var ætlað að fara í.

Þá er forvitnilegt að skoða hvernig tekið er á þessum efnum í fjárlagafrumvarpinu. Ef maður lítur fyrst yfir þetta svið í stórum dráttum blasir við að á tekjuhliðinni er gert ráð fyrir því að tekjur lækki frá frumvarpi til 2. umr. Þær eru áætlaðar rétt tæpir 460 milljarðar, heildargjöldin eru áætluð verða um 560 milljarðar og niðurstaðan af þessu tvennu leiðir til þess að heildarjöfnuður versnar um tæpa 15 milljarða kr. Hann er áætlaður í frumvarpinu eins og það liggur hér fyrir við 2. umr. neikvæður upp á tæpa 102 milljarða eða 6,5% af vergri landsframleiðslu. Frumjöfnuðurinn aftur á móti versnar um rúma 18 milljarða og er samkvæmt frumvarpinu orðinn neikvæður um 2,8% af vergri landsframleiðslu. Ég kem síðar að þessu atriði hér í ræðu minni.

Tekjurnar lækka eins og ég gat um áðan um rétt rúma 9,5 milljarða, gjöldin í samstæðunni aukast um 4,8 milljarða sem stafar af því að upp á móti gjaldatillögum ríkisstjórnarinnar og tekjulækkun koma tekjur sem ætlað er að fáist fram í lægri vöxtum en frumvarpið gerði ráð fyrir.

Ég vil enn fremur nefna hér í stórum dráttum heimildargreinina, sérstaklega 6. grein. Þar eru ýmsar breytingar gerðar frá frumvarpi til 2. umr. og ástæðulaust er að staldra við þær allar en ég vil þó geta einnar sérstaklega sem kom örlítið til umræðu hér áðan í tengslum við tónlistarhúsið margnefnda. Þessi heimild sem hér er ný lýtur að lið 7.15 í 6. gr. heimildunum og varðar Landspítala – háskólasjúkrahús þar sem farið er fram á heimild til þess að stofna hlutafé um byggingu hússins, leggja félaginu til nauðsynleg lóðaréttindi o.s.frv. Ég vil geta þess að þessi heimild er óútfærð og enn fremur hefur kostnaðarmat útboðsins ekki verið rætt eða kynnt sérstaklega í fjárlaganefnd. Það er ástæða til að taka þetta fyrir og ræða sérstaklega þar inni áður en til endanlegrar afgreiðslu kemur og jafnframt að ræða með hvaða hætti eigi að færa þessar stærðir sem þarna kann að leiða af inn í reikninga ríkisins.

Sömuleiðis er tillaga í heimildargrein 6.21 til þess að leigja hentugt húsnæði fyrir bráðabirgðafangelsi. Hún er líka óútfærð og einnig leiga á húsnæði fyrir gæsluvarðhald fanga á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þarf að skýra á milli umræðna.

Þetta er stóra myndin af þeim breytingum sem gerðar eru á frumvarpinu frá því það var lagt fram í október til þeirrar umræðu sem við stöndum í hér og nú. Þess vegna er forvitnilegt að skoða aðeins efnahagslegar forsendur frumvarpsins. Þjóðhagsspá hefur verið lögð fram allnokkrum sinnum á þeim tíma sem frumvarpið tekur til. Í fyrsta lagi má nefna varðandi fjárlagaforsendur ársins 2009, í öðru lagi varðandi áætlun ársins 2009 en jafnframt liggur fyrir að sú áætlun hefur verið endurskoðuð. Ekki síst vil ég nefna að gerð hefur verið ný spá, að vísu ófullkomin eftir því sem fjármálaráðuneytið viðurkennir sjálft, um þjóðhagsforsendur og sú spá var birt okkur nú í síðustu viku í tengslum við 2. umr. fjárlaga.

Það er mjög merkilegt að skoða niðurstöður þeirrar spár sem fyrir okkur var lögð. Ég vil þó gæta þess að það komi fram og sé undirstrikað að fjármálaráðuneytið taldi mikla óvissu ríkja um þessi efni. Af þeirri ástæðu tel ég fullkomlega eðlilegt að óskað verði eftir því fyrir 3. umr. um fjárlög að þessar upplýsingar um þjóðhagsspána verði gerðar fyllri en þær sem fjárlaganefndinni voru birtar.

Þar er mjög merkilegt að skoða ákveðnar stærðir í þessari nýju spá sem lúta að sérstaklega vergri landsframleiðslu, hagvexti. Gert er ráð fyrir að hann dragist saman og verði neikvæður um 2,3%. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að verðbólgan aukist, fari úr forsendum fjárlagafrumvarpsins sem voru 5% í 6% sem staðfestir þá umræðu sem í þjóðfélaginu er um að undirliggjandi sé verðbólguþrýstingur sem menn taki ekki á. Hins vegar er ánægjulegt að horfa til þess að það er gert ráð fyrir að atvinnuleysi sem hlutfall af mannafla verði lægra en forsendur fjárlagafrumvarpsins gerðu ráð fyrir eða fari úr 10,6% í 9,6%. Það er engu að síður allt of hátt.

Sömuleiðis er athyglisverð sú staðreynd sem kemur fram í þessari þjóðhagsspá, það tengist tekjuspánni sem við ræðum síðar, og það er varðandi fjárfestingu í landinu. Gert er ráð fyrir því í þessum endurmetnu þjóðhagsforsendum að hún dragist saman frá áætlun frumvarpsins eins og það kom fram í október. Nú er gert ráð fyrir því að fjárfesting nemi um 4,8% á móti því að gert var ráð fyrir í frumvarpinu að hún mundi nema um 10,2%. Fjárfestingin dregst verulega saman, hagvöxtur einnig, verðbólga er undirliggjandi og er að hækka. Þessar stærðir eru sérstaklega athyglisverðar og ég bið hv. þingmenn að hafa þær í huga þegar rætt er um þau skattalagafrumvörp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og tengja við áform um auknar tekjur ríkissjóðs af þeim skattalagafrumvörpum sem kynnt hafa verið. Niðurstöður þessarar spár benda til þess og styrkja þær röksemdir sem komið hafa fram varðandi skatttekjur ríkisins á næsta ári að þær séu ofmetnar í þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram.

Þótt umfjöllunin um hagvöxt næstu ára sé ekki endilega efni þessa álits er óhjákvæmilegt að minnast á að þær spár fjármálaráðuneytisins sem hér liggja fyrir þar sem árið 2011 er gert ráð fyrir 2,8% hagvexti, (Forseti hringir.) 4,8% verði hann árið 2012 og 2,6% árið 2013. Þetta eru óraunhæfar áætlanir í ljósi þeirrar spár sem kom fram núna og full ástæða er til þess að þetta verði endurmetið.

(Forseti (RR): Forseti vill spyrja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hvort hann sé að koma að kaflaskiptum í ræðu sinni því að forseti hyggst fresta fundi nú klukkan hálfeitt.)

Virðulegi forseti. Ég get alls staðar búið til kafla í ræðu mína og skal gera það með glöðu geði. Ég vænti þess að einhverjir séu svangir, eins og sagt var hér um daginn og skal með glöðu geði gera hlé á ræðu minni.

(Forseti (RR): Forseti þakkar hv. þingmanni fyrir. Umræðunni er frestað og þessum fundi er frestað til klukkan 14:00.)