138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með ánægju skyldi ég veita hæstv. utanríkisráðherra svar við þessari spurningu ef ég gæti en svo háttar til að hæstv. ráðherra hefur starfað lengur með Sjálfstæðisflokknum að vinnu við gerð ríkisfjármála en sá sem hér stendur. Síðustu tíu árin hefur hæstv. utanríkisráðherra lifað og starfað og unnið verk sín af trúmennsku hér á Alþingi og hefur unnið í þessum málum til muna lengur en sá sem hér stendur, það er rétt.

Ég hef enga greiningu á því hversu stór hluti þessarar aukningar er Sjálfstæðisflokknum að þakka eða kenna. Ég skal upplýsa hæstv. utanríkisráðherra um það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur að mestu verið í forustu ríkisstjórnar síðustu 18 árin og ber að sjálfsögðu gríðarlega mikla ábyrgð á þeim vexti sem hér hefur orðið í samfélagsþjónustunni, alveg tvímælalaust. Sem sjálfstæðismaður er ég ágætlega stoltur af því velferðarkerfi sem byggt hefur verið upp á Íslandi á síðustu árum en það þýðir ekki að ekki megi gera betur og það þýðir ekki að það eigi að vera sjálfkrafa vöxtur í því þó svo að tekjugrunnurinn hrynji saman.

Ég stend í þeirri trú að vöxturinn í velferðarkerfinu hafi byggst á of miklum væntingum til atvinnulífsins um hvað það gæti lagt til velferðarþjónustunnar. Við höfum farið fram úr okkur í þeim efnum. Ég svara bara hæstv. ráðherra með þeim hætti að ég hef enga greiningu á því. Sjálfstæðisflokkurinn ber með öðrum flokkum tvímælalaust ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er, hvort tveggja því sem er gott og því sem miður hefur farið.