138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill svo til að hæstv. utanríkisráðherra segir satt um þátttöku mína við gerð fjárlaga fyrir árið 2009. Ég hef ákveðnar upplýsingar úr þeirri vinnu einfaldlega vegna þess að ég lagði til ákveðnar aðgerðir til lækkunar útgjalda fjárlagafrumvarps ársins 2009. Það voru ekki sjálfstæðismenn sem stöðvuðu þær, dýpra ætla ég ekki að fara í það (Gripið fram í: Sumir hafa viðurkennt að hafa verið í stjórn.)

Ég hef starfað í stjórnarmeirihluta frá því að ég kom á Alþingi með hæstv. utanríkisráðherra og hans flokki. Ég ætla ekki að dæma einn flokk umfram annan í þeirri stöðu sem uppi er. Ég bauð fyrir hönd minni hluta fjárlaganefndar að við skyldum vinna með stjórnarmeirihlutanum að því að ná tökum á þessu. Það er annað boð en stjórnarandstaðan hefur haft uppi áður. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að taka í þessa útréttu hönd til þess að ráðast að þessum vanda í stað þess að detta í gamaldags hanaslag um hverjum þetta og hitt er að kenna. Geymum það. Tökum á. Við höfum ekki efni á því að haga okkur svona. Það er við allt önnur og stærri viðfangsefni að glíma en heiður einstakra stjórnmálamanna eða flokka. Hér er undir þjóðin og afkoma í ríkisbúskapnum.

Til að upplýsa um hið góða sem gert hefur verið sl. 18 ár nægir að nefna bætur í almannatryggingum, þó ekki væri annað sem gengið er að og þarf að ganga að núna. (Gripið fram í: … sérstakt áhugamál Sjálfstæðisflokksins.) Það er ekki sérstakt áhugamál eins eða neins (Gripið fram í.) en þeir komu að þeirri gjörð að bæta þetta kerfi.