138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni hlý orð í garð stjórnarandstöðunnar og upplýsa hann, ekki síst í ljósi þeirra orða sem hv. formaður fjárlaganefndar hafði um að engar af þessum tillögum stjórnarandstöðunnar hefðu komið fram í vinnu nefndarinnar.

Þungamiðjan í þessum tillögum er skattur af séreignarsparnaði. Sú áhersla sjálfstæðismanna hefur legið fyrir alveg frá því í vor. Það er ekkert nýtt í því, ekki nokkur skapaður hlutur. Frumvarpið er komið fram og ég benti á það í framsöguræðu minni að tekjur af þessu frumvarpi eru 18,7 milljörðum hærri en allt skattafárið og öngþveitið sem á að skapa með frumvörpunum um skattana.

Lítum þá aðeins á gjaldahliðina. Hvað er nýtt í henni? Erum við ekki búin að þrástagast um það í fjárlaganefnd í allt haust hvernig eigi að fara með ónotaðar fjárveitingar? Hér er tillaga um að Vegagerðin fái að nýta 4,4 milljarða. (Gripið fram í: En útgjöld?) Útgjöld? Það hefur engin áhrif á fjárlagafrumvarpið sjálft, ekki nokkur. Það verður afgreitt í lokafjárlögum eins og hv. formanni fjárlaganefndar á að vera kunnugt um. Látum vera þó hv. þm. Ásmundur Einar Daðason þekki það ekki. Þarna er fullt af þáttum sem margoft hafa verið nefndir.

Hvernig í ósköpunum ættum við í stjórnarandstöðunni að koma fram með fullburða tillögur á fimmtudegi, sama dag og við fáum í hendur tillögur ríkisstjórnarinnar? Þær eru afgreiddar í hádeginu daginn eftir. Á ekkert að gefa mönnum tíma til þess að fara yfir þau gögn? Síðan koma menn og kveina undan því að við höfum ekki lagst yfir þetta og komið með fullburða tillögur. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að þær tillögur sem við leggjum fram séu ábyrgar og (Forseti hringir.) raunhæfar og ég hvet ykkur til þess að taka þær til alvarlegrar íhugunar milli umræðna.