138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:21]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við skulum átta okkur á því að mörg þeirra verkefna sem þarna er um að ræða hafa einmitt tekið á sig hvað mesta skerðingu. Ef við skoðum þetta hvað varðar safnliðina, eru það einmitt safnliðirnir sem hafa tekið á sig mesta skerðingu og mörg þessara verkefna taka á sig 50–60% skerðingu í höfuðstól eða sem sagt heildarsummu inn í þessa liði. Það er því ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að þarna hafi ekki verið um forgangsröðun að ræða.

Við verðum líka að hafa hugfast að einn mesti vaxtarbroddurinn núna er ferðaþjónustan vítt og breitt um landið og það eru einmitt mörg af þessum setrum og söfnum sem eru undirstöðuatriði í ferðaþjónustu.

Hvað varðar jólasveinasetur í Mývatnssveit eða hvað það var sem hv. þingmaður nefndi, harma ég það ef dóttir hv. þingmanns er hætt að trúa á jólasveininn, því að ég get fullyrt það við hv. þingmann að dætur mínar trúa á jólasveininn og Stúfur kom í nótt og gaf þeim gjafir í skóinn.