138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi umræða er komin hér úr öllum vitrænum böndum.

Ég hef áður sagt það að mörg þessara verkefna úti á landi eru þörf og góðra gjalda verð, en það er einfaldlega í langstærstum hluta allra þessara safnliða verið að veita fjármuni til áhugamannafélaga sem fá hugmynd, sem í sjálfu sér getur verið alveg brilljant og frábær og skaffað viðkomandi einstaklingi eða vinum eða ættingjum atvinnu, en það er ekki þar með sagt að það eigi að fara ofan í vasa skattborgaranna til að greiða fyrir það. Þar skil ég einfaldlega á milli og vil að fjármunir sem þessir, sem og til annarrar starfsemi eða annarra útgjalda í fjárlagafrumvarpinu, hvort sem um er að ræða úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu, verði afgreiddir með faglegum hætti og persónulegri fjarlægð þingmanna frá viðfangsefninu þannig að þeir tengist því ekki beint. Það tel ég vera eðlilega afgreiðslu en ekki þá sem ég varð vitni að í fjárlaganefnd. Ég heyri að slíkt hafi verið rætt áður að þetta þyrfti að gera og að þetta hafi verið rætt oft áður en aldrei verið lagað. Og úr því að ég er kominn á þing með rödd sem nokkrir kannski hlusta á, legg ég það einfaldlega til með þessu áliti og með ræðu minni hér að þetta verði lagað og þessu verði breytt. Það eru til sjóðir, Húsafriðunarnefnd, Bókmenntasjóður og fjöldinn allur af sjóðum sem kunna að fara með þessa fjármuni á faglegan máta og fylgja því eftir að þeim sé varið í það sem sótt er um. Það tel ég vera réttu meðferðina.