138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:05]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Nokkur atriði vöktu upp spurningar hjá mér og langar mig að beina þeim til hv. þingmanns. Það er í fyrsta lagi þegar hann kemur inn á skattamálin og fer að fjalla um skattatillögur ríkisstjórnarinnar í upphafi ræðu sinnar og talar um hversu vinstri sinnaður hann er og annað í þeim dúr, sem er vel. Hann talar einnig um að ekki beri að festast í skotgröfum. Ég ætla ekki að gera það en það liggur fyrir í mínum huga að margar af þeim skattalækkunum sem farið var í hér á þenslutíma voru ekki réttar. Því langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann telji ekki eðlilegt sem vinstri sinnaður maður að þær skattatillögur sem nú liggja fyrir, til að mynda varðandi þrepaskatt, þar sem þeim sem lægst launin hafa er hlíft og tillögur varðandi hærri fjármagnstekjuskatt með frítekjumarki þar sem þeim sem minnst hafa er hlíft — hvort hann er ekki fylgjandi slíkum aðgerðum þar sem hann titlar sig vinstri mann.

Það vakti síðan nokkra furðu mína, ef ég á að vera hreinskilinn, þegar hann fer að tala um að þeir hafi alla tíð boðist til þess að aðstoða við fjárlagagerðina. Eins og þetta blasti við mér — og það er kannski vitleysa, ég er nýr þingmaður — virtist mér á öllum stigum málsins vera kallað eftir hugmyndum frá minni hlutanum og öðru þvíumlíku. Þá sá hv. þingmaður ekkert sem hann vildi koma inn í þessa vinnu.

Ég var svo með spurningar sem ég kem inn á í seinna andsvarinu. Tíminn leyfir það ekki núna.