138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að nú yrðu tekin upp ný vinnubrögð og niðurskurðurinn mundi verða sanngjarn gagnvart öllum íbúum landsins. Því langar mig að spyrja hv. þingmann út í það að nú er verið að skerða þrjár heilbrigðisstofnanir úti á landsbyggðinni mjög mikið, á Blönduósi um 10,1%, á Sauðárkróki um 8,9% og á Patreksfirði um 8,7%. Á sama tíma og þetta er gert er 8,4% bætt við skrifstofukostnaðinn á aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins þó svo að það sé búið að færa til verkefni þar, sem eru sennilega um 20 milljarðar, yfir í félagsmálaráðuneytið. Kallar hv. þingmaður það sanngjarnt að gera þetta með þessum hætti, að skerða þjónustu við sjúklinga úti á landsbyggðinni en auka hér við skrifstofustörfin í Reykjavík? Er það sanngirnin sem þessi nýja ríkisstjórn boðar?

Hv. þingmaður ræddi mikið um Ríkisendurskoðun, þá ágætu stofnun. Svo kemur fram í áliti Ríkisendurskoðunar við gerð fjárlaga núna 2010 að sú stofnun hefur miklar áhyggjur af þeim skattstofnum sem nú verið er að leggja mikla skatta og byrðar á, að það sé ekki til sá tekjuslaki í kerfinu sem reiknað er með að sé þar. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að skattstofnarnir séu það veikir að þær skattahækkanir sem fram undan eru muni ekki skila tilætluðum árangri? Það kom líka í ljós núna á haustdögum þegar Ríkisendurskoðun fór yfir hvað hefði gerst við þær breytingar sem urðu í svokölluðum bandormi, að tekjur höfðu ekki skilað sér eins og búist var við. Vaxtagjöldin vega þó upp á móti en það kemur í veg yfir að tekjurnar skili sér. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af þessum niðurstöðum Ríkisendurskoðunar?