138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir spurningarnar og viðbrögðin. Hv. þingmaður spyr að því hvort ég telji það sanngjarnt að verið sé að fækka og skera niður í heilbrigðiskerfinu í þeim mæli sem hann talaði um og nefndi í því sambandi einhverjar stofnanir á landsbyggðinni.

Ég spyr á móti: Hvað er sanngjarnt við það hrun sem hér varð gagnvart íbúum landsins? Raunveruleikinn blasir við okkur eins og hann er og við verðum að laga okkur að honum. Það kom m.a. fram í máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, fulltrúa í fjárlaganefnd, hér fyrr í dag að þetta er það sem við verðum að gera. Við verðum að laga okkur að raunveruleikanum eins og hann blasir við, verðum að laga okkur að þeim tekjum sem við höfum, útgjöldin mega ekki vera meiri. Þetta er það sem þarf að gera og það sem blasir við Alþingi í dag, það þarf að skera niður, það verður að fækka, m.a. í heilbrigðiskerfinu, í félagskerfinu, í menntakerfinu, það þarf alls staðar að taka til.

Ég ætla ekki að dæma um þau tilteknu atriði sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Það er ósanngjarnt að íbúar landsins skuli verða svo hart fyrir barðinu á því hruni sem hér varð. Það er ekkert sanngjarnt við það, en þetta eru staðreyndirnar eins og þær blasa við okkur.

Ég tek undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni varðandi skattstofnana og þær áhyggjur sem hann hefur af því hvort þeir séu það illa leiknir að þeir komi til með skila áætluðum tekjum. Það er rétt að hafa áhyggjur af því og við eigum að efast um það í hvert einasta sinn þegar við breytum t.d. skattkerfinu hvort við munum ná árangri með því. Eins og staðan er í dag er allt útlit fyrir að það mundi standast. (Forseti hringir.) Það eru vísbendingar til þess að mati Ríkisendurskoðunar og við sjáum teikn um það víða (Forseti hringir.) í tekjuöflun hjá ríkinu.