138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að menn verða að skera niður í ríkiskerfinu, ég deili þeirri skoðun með honum. Við höfum lagt til í okkar áliti, 1. minni hluti, að fara jafnvel í enn frekari niðurskurð upp á 8 milljarða og réttum út hönd til þess að aðstoða stjórnarmeirihlutann ef hann vill vinna það á milli 2. og 3. umr.

Ég tiltók þessar þrjár stofnanir, á Blönduósi, Sauðárkróki og Patreksfirði, sem fá niðurskurð í heilbrigðiskerfinu langt umfram allar aðrar. Ég er ekki að segja að það eigi ekki að skera niður þar en þessar þrjár stofnanir fá niðurskurð langt umfram allar aðrar stofnanir. Á sama tíma og þetta er gert á þessum stöðum er verið að auka útgjöld aðalskrifstofunnar í Reykjavík um 8,4% þótt verkefni upp á 20 milljarða séu færð þaðan yfir í félagsmálaráðuneytið. Þess vegna er þetta eðlileg spurning: Er rétt forgangsröðun að skera niður hjá sjúklingum úti á landi en bæta við skrifstofubáknið í Reykjavík?