138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:47]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að sjálfstæðismenn hafa gert tillögur um enn frekari niðurskurð í rekstrinum en þó er verið að fara í og ætla að fara nokkuð brattar í það en ríkisstjórnin hefur í hyggju að gera. Reyndar hefur ríkisstjórnin dregið í land og tekið til baka þær fyrirætlanir sem lagt var af stað með í sumar um brattan niðurskurð í rekstri ríkisins í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og víðar. Við teljum okkur hafa rými til þess og það er m.a. niðurstaða fundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag að sá árangur hafi náðst að við þurfum ekki að fara eins bratt í niðurskurð og verið hefur.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að dæma um þær stofnanir sem hv. þingmaður nefndi, hvað sé sanngjarnt og hvað ekki í því. Markmiðið með fjárlagafrumvarpinu er þó, og það er markmið okkar allra í fjárlaganefnd eftir því sem ég best veit, að deila byrðunum jafnar niður á íbúa landsins en gert hefur verið hingað til.