138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:48]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir hans framsögu. Hann fjallaði í löngu máli um skýrslu Ríkisendurskoðunar og þá peninga sem töpuðust í bankahruninu í Seðlabankanum.

Nú er ljóst að við hrunið voru 340 milljarðar af ótryggðum bankabréfum lagðir að handveði inn í Seðlabankann í endurhverfum viðskiptum. 70 milljarðar af þessu voru teknir af eigin fé Seðlabanka Íslands og 270 milljarðar voru færðir í skuldabréf frá ríkissjóði þar inn.

Nokkurs misskilnings gætir með þetta allt saman. Í fyrsta lagi að það sem átti sér stað hafi verið ólöglegt eða skrýtið. Þetta tíðkaðist í öllum seðlabönkum heims. Í öðru lagi er sagt að Seðlabankinn hafi ekki sett neinar reglur. Snemmsumars í fyrra setti Seðlabankinn reglur um að það yrði svokallað 50% „haircut“ á þessum bréfum en þær reglur voru ekki komnar til framkvæmda að fullu þegar hrunið varð.

Í þriðja lagi hversu mikið tap er af þessu. Ljóst er að bréfin lágu að handveði og þá ætti hv. þingmaður að vita að kröfur hafa færst til ríkissjóðs á þrotabú bankanna og sagt er að 30–40% í Glitni og Kaupþingi innheimtist aftur, sem gæti numið rúmum 100 milljörðum kr. Gerir hv. þingmaður sér grein fyrir því að ríkissjóður Íslands, Seðlabankinn, er orðinn einn af svokölluðum kröfuhöfum og eigandi bankanna í gegnum þessi viðskipti? (Forseti hringir.) Þetta eru ekki tapaðir peningar.