138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að undirskrift fjármálaráðherra hafi ekkert að segja. Það má vel vera að lög frá Alþingi, frá því í sumar, hafi ekkert að segja. Það er búið að setja lög um þetta, það er búið að skrifa undir og ég trúi ekki öðru en það gildi og eigi að koma inn í fjárlagafrumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra flytur.

Hv. þingmaður talaði um fyrirheit til framtíðar. Nú er það þannig að allt þetta frumvarp, lagabreytingarnar um tekjurnar, allt miðar að því að minnka atvinnu í landinu — það er verið að hækka tryggingagjald sem er ekkert annað en gjald fyrir atvinnu, það er verið að skerða allt áhættufé sem er samt sem áður vonast til að búi til atvinnu í landinu. Það er verið að ráðast á áhættufé frá öllum hliðum í tekjufrumvörpum ríkisstjórnarinnar eins og ríkisstjórninni sé alveg sérstaklega illa við það að menn skapi atvinnu í landinu. Ég vil spyrja hv. þingmenn: Hvernig má það vera að menn eru að hækka tryggingagjaldið á atvinnu og skerða umhverfi áhættufjár?