138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að hér voru samþykkt lög í ágústmánuði, um ríkisábyrgð varðandi Icesave-samningana. Það var m.a. gert að hans kröfu að viðsemjendur okkar, Bretar og Hollendingar — svo við tökum þessa rispu undir þessum lið líka, það er búið að ræða þetta vikum og mánuðum saman — féllust á þau skilyrði sem þá voru sett og það gerðu þeir ekki. Þess vegna er engin ábyrgð orðin virk, þess vegna er skuldin ekki orðin virk í bókhaldi ríkisins og verður þar af leiðandi ekki færð þar til bókar. En ef þingmaðurinn tekur á sig rögg og fylgir stjórnarliðum í því að gera þessa fortíð sína upp verður það að sjálfsögðu fært til bókar honum til mikillar gleði.

Ég gleymdi að svara hv. þingmanni varðandi kynjaða skipstjórn. Mér vitanlega eru þó nokkrar konur skipstjórar á Íslandi og þó nokkrar konur sjómenn en ég hef ekki fjölda yfir það. Ég skal afla þeirra upplýsinga fyrir hv. þingmann ef hann óskar eftir því.