138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í andsvari hv. þingmanns, þar sem við verðum að taka útgjöldin föstum tökum og fylgjast vel með rekstrinum. Það kemur líka fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þær aðhaldsaðgerðir sem átti að fara í árið 2009 hafa ekki skilað sér nema að mjög litlu leyti. Það er vegna þess að við höfum ekki nógu mikið aðhald á rekstrinum og þeim sem stýra rekstrinum.

Ég fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu hv. þingmanns um að hann telji að fjárlaganefnd eigi að fylgjast mun betur með og gera það mánaðarlega, bæði með tekjum og útgjöldum, vegna þess að það er einmitt sú umræða sem farið hefur fram í nefndinni. Við munum flytja nefndartillögu um að fjárlaganefnd og starfsmennirnir hafi aðgang að bókhaldinu til að hafa þetta aðhald. Ég vænti þess að hv. þingmaður taki vel í þá tillögu.

Síðan langar mig að spyrja hann frekar út í þessi lausatök í ríkisfjármálunum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að menn þurfa að taka erfiðar ákvarðanir í þessu skyni en nú er búið að ræða skerðingu í Fæðingarorlofssjóði og menn hafa komið þrisvar sinnum með mismunandi útgáfur af henni. Það var dálítið sérkennilegt að heyra hæstv. félagsmálaráðherra segja að frumvarp sem hann flutti væri nánast þannig að æskilegt væri að félagsmálanefnd tæki það og tætti það niður til að laga það því að á því væru miklir gallar. Því langar mig að spyrja hv. þingmann að því hvort það væri þá ekki eðlilegra að stjórnarliðar kláruðu þessi mál í nefndunum í staðinn fyrir að rífa þau út og setja þau aftur inn og þar fram eftir götunum. Þarf ekki að breyta þessum vinnubrögðum þannig að við náum þá tilætluðum árangri í því sem við ætlum að gera, að við setjum okkur markmið og tökum mun fastar á þeim verkefnum sem við vinnum að.

Það kemur fram í 1. minnihlutaáliti fjárlaganefndar að við réttum út sáttahönd, (Forseti hringir.) við viljum taka þátt í að skera enn frekar niður og aðstoða (Forseti hringir.) stjórnina við að reisa efnahaginn við. Hvað finnst hv. þingmanni um það?